
Vorið hefur verið blautt og á köflum kalt og fremur leiðinlegt. Svæði voru misfljót í gang af þeim sökum, en þar sem urriði eða sjóbirtingur skipta mestu máli þá var veiði góð eftir því sem menn treystu sér til að standa vaktina. Nyrðra hefur merkilegt nokk verið oft og tíðum betra veður en syðra þetta vorið og menn hafa verið að draga urriða úr Laxá í Aðaldal.
Þetta á við um býsna mörg svæði. Þannig höfum við frétt af afla í Presthvammi, Syðra Fjalli, Hrauni og víðar þó að víða sé ekki formlegur veiðitími, frekar að men séu að leyfa vinum og kunningjum að renna fyrir silung þegar veður leyfir. Þetta á einnig við á Laxamýri þar sem afar góð urriðaveiði er í boði, bæði í svokölluðu Mýrarvatni, sem er útvíkkun á Laxá neðan við Heiðarenda, sem og víðar á svæðinu. Urriðinn sem er neðan virkjunar við Brú er yfirleitt ívið smærri heldur en í Laxárdal og Mývatnssveit, en vænn og fallegur samt sem áður.
Þá hefur verulega góð urriðaveiði fengist í Mýrarkvísl í vor, áin verið dálítið lítið stunduð en þegar menn hafa kíkt þá hefur veiði verið góð og vænir fiskar í bland.