Gunnar Óskarsson, Geirlandsá
Viðmælandi okkar Gunnar Óskarsson, formaður SVFR með boltafisk úr Geirlandsá nú í haust.

Eldvatn í Meðallandi var ekki eina sjóbirtingsáin á þeim slóðum sem skilaði metveiði í þeirri uppsveiflu sem verið hefur 2-3 síðustu árin. Við getum bætt Geirlandsá við, en metveiðin þar var ekkert annað en rosaleg. Tvöföldun frá fyrra meti!

Þetta staðfesti Gunnar Óskarsson ormaður SVFK sem var að enda við að telja uppúr veiðibókinni. Þeir sem fylgjast með ánum í Vestur Skaftafellssýslu voru farnir að gruna að eitthvað í þessa veru kæmi fram, en gefum Gunnari orðið: „Þetta eru ítrúlegar tölur, þetta eru alls 940 fiskar skráðir í bók í ár, þar af 907 birtingar, restin laxar og bleikjur. Skiptingin er á fjórða hundrað í vorveiðinni, restin síðsumars og um haustið. Metið sem slegið var, var ekki gamalt, það var síðan á síðustu vertíð og þá komu 537 birtingar og einhver reytingur af laxi og bleikju. Þetta er því góð tvöföldun. Við höfum fundið fyrir þessari uppsveiflu síðan í hitteðfyrra, þegar það komu punds þungir geldfiskar nánast í þúsundatali um haustið. Þessi fiskur hefur verið viðloðandi síðan og enn að bæta í, en þessir fyrstu eru að veiðast núna sem 3 til 5 punda. Það er því ekkia lveg eins hátt hlutfall af stórfiski og var t.d. í fyrra, en það eru samt trukkar innanum, all nokkrir 80 til 89 cm og margir um og yfir 70 cm. Það er óhætt að segja að við séum í skýjunum með árangurinn og þetta lofar góðu fyrir framtíðinda,“ sagði Gunnar.

SVFK er með aðra þekkta sjóbirtingsá í sýslunni, Fossála. Gunnar sagði lokatölu ekki liggja fyrir enn sem komið er, það veiðibókin yrði skoðuð á næstu dögum. „Ég get samt sagt að vertíðin Fossálum var mjög góð, en læt það duga að sinni.“