Það er eiginlega orðinn árviss viðburður að Bubbi Morthens láti vita af fyrsta laxi sumarsins í Laxá í Kjós. Hann er búinn að koma auga á hann, og það óvenju snemma verður að segjast!

„Ég sá fyrsta laxinn í Kvíslafossi núna í morgun, fallegan 8-9 punda fisk,“ sagði Bubbi við VoV nú síðdegis. Laxá í Kjós er ein þeirra áa sem fá mjög snemmgenga laxa, en komutími þeirra hefur þó oftast verið um og uppúr 20.mai, sem rímar við Borgarfjörðinn þar sem netaveiðin byrjaði alltaf 20.mai í þá gömlu góðu daga. Og alltaf veiddist eitthvað, stundum lítið og stundum mikið. En alltaf var líf. En núna er aðeins 12.mai og vorið ekki verið sérlega vinsamlegt, a.m.k. ekki miðað við það sem boðið var uppá í fyrra. Það er því eiginlega magnað að fyrstu laxarnir séu að skríða í heimahöfnina.

Bubbi vaktar Laxá vandlega, enda hæg heimatökin þar sem hann er búsettur í Kjósinni, á bökkum hins fallega Meðalfellsvatns.