Kristín Ben með hænginn sinn stóra, gamlan og lífsreyndan. Mynd Gunnar Óskarsson.

Það ber mikið á mjög stórum sjóbirtingum í ám í Skaftafellssýslunum þetta haustið. Mætti bóla meira á geldfiski til að sannfæra menn um að nýliðun sé í gangi. En eitt nýlega dregið tröll hafði yfir sér sérstakan brag að þessu sinni.

Það var kannski ekki fiskurinn sem slíkur, þótt stór væri, 87 cm og áætlaður 8 kíló, eða 16 pund. Dreginn úr Ármótunum í Geirlandsá. Nei, það var mun frekar veiðimaðurinn eða öllu heldur veiðikonan Kristín Benediktsdóttir sem vekur meiri athygli en hængurinn hennar stóri, þó að þau séu góð saman. Kristín er eiginkona Gunnar Óskarsson formanns SVFK, sem er leigutaki Geirlandsár og Kristín vann þetta afrek sitt í framhaldi af langri og þrautum stráðri  endurhæfingu í kjölfar alvarlegs bílslyss s.l. vetur þar sem Kristín varð fyrir alvarlegum meiðslum. Var hún mikið brotin og lemstruð og vitað að framundan væri fjöldi mánaða í endurhæfingu. Það hefur borið þann ávöxt að Kristín er nú farin að mæta á veiðislóð með karli sínu….og veiða stærstu fiskana eins og við hefur borið áður, en þau hjón hafa verið dugleg að toppa í vigt allt sem veiðifélagar þeirra hafa dregið að landi.