Nils Folmer
Nils Folmer með risahrygnuna, hrygnur af þessari stærð eru fágætar.

Eins og venjulega þá taka stórlaxar sig til á haustin og gerast djarfari í flugurnar. Líklegast þykir ávalt að það stafi af því að breytingar eiga sér stað í líffræði laxa og þeir skynja að hrygning sé skammt undan. Þá verða laxar árásargjarnir, sérstaklega hængarnir, en hrygnurnar taka til við að verja bælin líka. Nú kemur hver fréttin af annari inn á borðið, hér eru tvær.

107 cm hrygna
Þarna innaní er eitthvert óheyrilegt magn af hrognum! 107 cm 56 cm ummál.

Nú, það þarf varla að tala fram að í einu tilvikinu kemur við sögu Nils Folmer Jörgensen, danski stórlaxabaninn sem að dregur þá venjulega nokkra um og yfir meterinn á sumri hverju. Hann fær þá víða, en aðallega þó á Nessvæðum Laxár í Aðaldal. Hann sagði um þann síðasta sem kom í morgun: „Drottningin var gjafmild við mig aftur. Eftir að hafa barist við erfið skilyrði um tíma færði hún mér átta af sonum sínum og dætrum, síðust í röðinni var þessi 107 sentimetra hrygna sem hafði 58 sentimetra ummál, tekin á Meridian tvíkrækju númer 8 í Grundarkvísl í Laxá. Hún á eftir að gera sitt við að tryggja næstu kynslóð laxa, svo mikið er víst.“

Sturla Birgisson
Sturla Birgisson með 102 cm hængtröllið.

Og ekki höfðum við fyrr frétt af risahrygnu Nils er við fréttum að stórkokkurinn og umsjónarmaður Laxár á Ásum, hefði landað 102 sentimetra hæng í hinum fræga Hnausastreng í Vatnsdalsá. Sturla er einnig mikill stórlaxahrellir, en dregur sína venjulega úr Vatnsdalsá. Eins og sjá má af mynd sem „Reiðari Öndin“ póstaði á FB þá er þetta mikill og magnaður höfðingi sem tók hálftíma að landa. Gekk að sögn mikið á, en segja má að báðir hafi haft betur, Sturla landaði og mældi sinn lax…og laxinn fékk frelsið á ný.