Sigurberg Guðbrandsson, Tungufljót
Sigurberg Guðbrandsson með 81 cm hæg úr Tungufljóti nú undir kvöldið.

Veiðin fór gríðarlega vel af stað í Tungufljóti í dag, að sögn Sigurbergs Guðbrandssonar sem var að opna ána ásamt félögum sínum. Veiðin í fyrra var mjög góð og mikill fiskur í fljótinu um haustið. Það endurspeglaðist í veiðitölum dagsins.

 

„Þetta voru rúmlega 70 fiskar í dag. Það var frekar lítið vatn en veiðilegt og fiskurinn var við Syðri Hólma. Stærstur í dag var mikið tröll, 91 cm og 47,5 cm í ummál,“ sagði Sigurberg í samtali við VoV. Kalt var á veiðislóð og hiti undir frostmarki þar sem veitt var inn til landsins, eins og í Tungufljóti og Geirlandsá.

 

VoV hefur haft reglu að fara á bakka Tungulækjar á opnunardegi um árabil, höfum sótt þangað „öruggt myndefni“, en að þessu sinni voru breyttir tímar. Nýir eigendur við ána og nýir veiðimenn að opna. Þeir óskuðu eftir að fá frið fyrir veiðifréttamönnum og virðum við það að sjálfsögðu. Það eru því engar „1.apríl“ tölur frá Tungulæk í ár, en við getum þó sagt að þar var líf og fjör.