Bjartur Matthíasson landaði Maríulaxinum sínum í Mýrarkvísl nú undir vikulokin. Mynd Matthías Þór.

Vikutölur angling.is hafa verið að skila sér inn síðan seint í gærkvöldi. Og þetta er upp og ofan eins og fyrri daginn. Hátíð þó miðað við hörmungina í fyrra. Við ætlum að breyta aðeins útfærslu umfjöllunarinnar að þessu sinni, en tökum ekki allan pakkann, aðeins töluhæstu árnar eitthvað niður eftir listanum.

Við rennum nú yfir þetta, að venju er fyrsta talan heildartalan miðað við gærkvöldið, talan á eftir er vikutalan og talan í sviganum er lokatala síðasta sumars og sjá má að góður slatti af ám er þegar kominn fram úr þeirri tölu þó að margar ár séu samt sem áður ekki alveg að standa undir væntingum.

Eystri Rangá   4587 -606 (3048)

Eystri er enn á góðu stími með mjög góða vikutölu miðað við að skilyrðin voru á tíðum erfið. Enn er lax að ganga og aflinn góð blanda af stórlaxi og smálaxi.

Ytri Rangá ásamt vesturbakka Hólsár  1549- 164 (1675)

Sumarið 2020 er augljóslega mun betra en í fyrra, en samt hefðu menn viljað sjá meiri styrk í göngum og veiði.

Miðfjarðará  1121 -201 (1606)

Mögnuð vika í Miðfjarðará og sömuleiðis magnað hvað hún heldur vel standard á sama tíma og flestar ár á Norðurlandi eru daufar.

Urriðafoss 901 – 27 (747)

Eins og stundum áður hefur dalað í Urriðafossi þegar liðið hefur á sumar. Hafa ber þó í huga að skilyrði hafa oft verið afar erfið, eins og t.d. einmitt síðasta vika. Veiðin er samt komin langt yfir veiði síðasta sumars og gæti með góðum endaspretti náð fjögurra stafa tölu.

Affall 876-198 (323)

Veiðin í Affalli stendur og fellur með því hvernig fer með gönguseiðasleppingar og að þessu sinni hefur tekist fanta vel til. Mok síðustu viku og áin á bullandi skriði og komin langt yfir tölu síðasta sumars.

Haffjarðará  753- 84 (651)

Veiði hefur verið góð í Haffjarðará og er hún eigi ósvipuð Miðfjarðará að því leyti að hún er miklu stöðugri í veiði heldur en ár í kringum hana. Komin hundrað löxum yfir síðasta sumar og gæti farið í fjögurra stafa tölu.

Selá í Vopn.  749 – 129 (1484)

Selá er með flotta vikutölu enn og aftur og er á sama góða rólinu og síðustu tvö sumrin. Stefnir í að hún verði síst lakari en í fyrra, sem var gott ár í Selá þrátt fyrir harðlífið víðast hvar annars staðar á landinu.

Norðurá  730 – 25 (577)

Vissulega mun skárra en í fyrra, en samt er Norðurá langt frá sínu besta. Meira að segja langt frá því að vera í einhverskonar meðalveiði. Mikil vonbrigði þarna því miður.

Þverá/Kjarrá  716 – 99  (1133)

Vantar einn lax í þriggja stafa yölu, en þó að þetta sé sæmileg vika þá er Þverá/Kjarrá í sama báti og aðrar Borgarfjarðarár. Þetta er vikuveiði, 99 laxar, á 14 stangir

Hofsá í Vopn.  638-92  (711)

Hofsá hefur verið á hægum batavegi síðustu árin eftir talsverða lægð. Í sumar hefur hún gefið í og er með bestu ám landsins sumarið 2020. Og á enn mikið inni. Lokatala síðasta sumars gæti náðst á alla næstu dögum.

Langá  601 – 107 (659)

Líklega besta vika sumarsins og augljóslega mun betra í Langá en í fyrra og stutt í lokatölu síðasta sumars. Hún hefur samt verið þung í gang en góður endasprettur gæti skilað fjögurra stafa tölu, í það minnsta tala margir um að talsvert mikið sé af laxi í ánni.

Jökla  559 – 101  (414)

Enn skilar Jökla þriggja stafa vikutölu og áin er ein af bestu ánum þetta sumarið. Yfirfallsdraugurinn hangir þó alltaf yfir Jöklu, en menn eru bjartsýnir á að þar verði hægt að veiða í það minnsta út ágúst. Það stefndi í met í fyrra þegar yfirfallið brast á allt, allt of snemma og skemmdi allt. Metveiði árinnar var 815 laxar sumarið 2015. Nú er stóra spurningin hvenær kemur yfirfall, því mikið er af laxi í ánni og veiði góð.

Valgerður Árnadóttir og dóttir hennar Matthilda með lax sem sú stutta landaði í Laxárholti í Stóru Laxá í morgun. Mynd Árni Baldursson.

Laxá í Kjós  543 – 112  (372)

Laxá er augljóslega miklu betri en í fyrra og komin langt yfir hörmungartölu síðasta sumars. Hún var brokkgeng framan af, en á góðu róli að undanförnu og stefnir í alveg bærilegt sumar. Mikil og góð sjóbirtingsveiði hefur einnig bætt á gæðin.

Blanda  475 – 65 (638)

Blanda var slök í fyrra og engin leið að spá fyrir um hvernig þetta endar í ár. Fyrr í sumar stefndi í snemmgengið yfirfall en veðurguðirnir gengu í lið með Blöndungum og enn er veitt. Einhverjum kann að þykja þetta vera slök tala í Blöndu, en hafa verður í huga að áin er nú eingöngu fluguveidd. Enginn maðkur, enginn spúnn. Það segir sitt hvað tölur varðar.

Laxá á Ásum  453 – 90  (807)

Þetta var alveg ágætis vika í Ásunum. En það styttist í vertíðarlok og spurning hvort að áin nái tölu síðasta sumars. Kunnugir segja að meira sé af laxi í ánni nú en þá og ef skilyrði verði í lagi, gæti áin jafnvel gert betur í sumar en í fyrra.

Elliðaárnar  393 – 68 (537)

Hermt er að mun meiri laxgengd sé í ána en í fyrra og að hún eigi mikið inni. Hún er nú aðeins veidd með flugu og þar með hafa nokkrir gjöfulir staðir gefið minna en ella. Vikutalan er fín miðað við stangarfjölda.

Laxá í Dölum  386 – 175 (746)

Laxá fór þumbaralega af stað, en vikuveiðin að þessu sinni sýnir hvað áin átti mikið inni. Með sama áframhaldi fer hún vel yfir tölu síðasta sumars, sem þó verður að segja að hafi ekki verið sérlega flott. En geggjað skot í Laxá!

Hítará  370 – 35  (204)

Hítará var ömurleg í fyrra og augljóslega mun skárri nú. Hún hefur á köflum verið illa seld og kann að skýra að tölur séu ekki hærri, því hermt er að fínar göngur hafi komið í ána í sumar.

Grímsá  341 – 55  (724)

Grímsá hefur örlítið hjarnað við síðustu tvær vikurnar, en samt er þetta ekki ávísun á gott sumar í ánni. Líkt og í helstu nágrannaánum. Áin er hins vegar annáluð síðsumarsá og gæti lumað á góðum endaspretti.

Víðidalsá 335 – 43 (430)

Ekki sérlega gjöful vika í Víðidalnum sem virðist vera við sama heygarðshornið og í fyrra. Það er öldudalur á Norðurlandi, nema kannski í Miðfjarðará, en það er enn mánuður til stefnu og áin gæti skotist fram úr tölu síðasta sumars.

Laxá í Leirársveit  330 – 61 (359)

Augljóslega stefnir í mun betri útkomu en í fyrra, en vikan var heldur dauf og kann að skýrast af því að áin er oft ekki fullnýtt.

Skjálfandafljót  281 – 13 (330)

Hiti og grugg skýrir ugglaust slaka vikutölu, en það styttist í lokatölu síðasta árs og áin ætti að sigla létt fram úr henni nema að skilyrðin hamli því.

Laxá í Aðaldal  279 – 15 (501)

Það liggur við að manni vökni um augun að sjá hvernig komið er fyrir drottningunni. Áin er skráð með 17 stangir hjá angling.is og vikutalan er 15 laxar sem nær ekki einum á stöng yfir sjö daga. Slök hefur hún verið síðustu ár og slök var hún í fyrra, en hvernig endar áin þetta sumarið?

Svalbarðsá  235 – 27 (469)

Þetta svona drattast áfram í Svalbarðsá og spurning með lokavikurnar, hvernig þær fara. Heildarveiðin er allt í lagi, en hefur oft verið miklu betri síðustu sumrin.

Þverá í Fljótshlíð  231 – 53  (143)

Þverá stólar á gengi gönguseiðasleppinga eins og fleiri ár á þessum slóðum. Þær hafa tekist vel eins og í Eystri Rangá og Affalli. Veiðin hefur verið góð í Þverá og áin komin langt yfir tölu síðasta sumars.

Vatnsdalsá  225 – 25  (477)

Það er rólegt í Vatnsdalnum og ekki hægt að segja annað um göngur í ána en að það reytist inn fiskur. Áin var slök í fyrra og ekki víst að hún jafni þá tölu. Lífleg sjóbirtings- og sjóbleikjuveiði er þó fín og hífir upp gæðin, enda eru þessir fiskar vænir í ánni líkt og í nágrannaánni Víðidalsá.

Hrútafjarðará  210 – 45  (401)

Rólegt í Hrútafirði eins og víðar á Norðurlandi. Erfitt að spá fyrir um hvort að tala síðasta sumars náist.

Leirvogsá  192 – 36  (113)

Áin var arfaléleg í fyrra og miklu betri nú. Bæði betri vatnsstaða og miklu meira af fiski. Hefur liðið fyrir slaka nýtingu á köflum.

Brennan  190 – 15  (187)

Svæðið skreið í vikunni yfir heildartölu síðasta sumars. Síðsumar og haustið eru ekki bestu tímabilin þarna, nema að menn séu að eltast við sjóbirting. Þannig að heildartalan mun tæplega hækka mikið. En hver veit?

Hafralónsá  183 – 21  (357)

Slök vikutala og áin er talsvert lakari en í fyrra. Það gildir um Sléttuárnar og Þistilfjarðarárnar, að það vantar talsvert upp á að smálaxagöngur hafi verið góðar.

Deildará  174 – 25  (241)

Þetta er áþekkur gangur og í Þistilfirðinum, drattast áfram, en Deildará gæti með góðum endaspretti farið yfir tölu síðasta árs.

Hér látum við staðar numið að sinni, það eru auðvitað fleiri ár á lista angling.is, en þessi samantekt gefur nógu góða mynd af því hver staðan er. Í stuttu máli, örfáar ár eru virkilega flottar, flestar betri en í fyrra, en vantar samt uppá hjá mörgum að þær hafi staðið undir væntingum. Eins og marg hefur verið sagt í textanum hér að ofan, spurning hvernig endaspretturinn verður.