Ásdís Guðmundsdóttir, Frúarhylur, Vatnsá
Ásdís Guðmundsdóttir með 83 cm hrygnu sem tók straumfluguna Carnival númer 8 í Frúarhylnum.

Fyrstu laxarnir eru að veiðast í Vatnsá þessa daganna, þessari miklu síðsumarsá. VoV var á vettvangi frá sunnudegi til dagsins í dag og það var flóðrigning mest allan tímann. Áin óx og óx, en gruggaðist ekki…og laxar sáust í ýmsum hyljum.

Hópurinn á undan VoV var 11.-13.8 , Svend Richter, Yngvi Örn og Anný Lára, og landaði fyrstu skráðu löxunum úr ánni á þessu  sumri, sex talsins, þar af einni 83 cm hrygnu. Fram að því voru menn að bóka fullt af silungi, m.a. vænum birtingum sem hafa verið að ganga að undanförnu. Það er samt hittingur á þá því að þeir vilja vaða strax upp í vatn. Einn sem tjáði huga sinn í athugasemdadálki veiðibókar í lok júlí sagði frá því að lítið væri komið af laxi, en hann hefði misst tvo. VoV náði einum, 83 cm hrygnu, áður en að slagveðrið skall á. Eftir það var einungis hægt að spjalla við urriðana í efri ánni. Ekki það besta að lenda í vaxandi vatni, en það verður ábyggilega stuð hjá þeim sem tóku við af VoV, enda sáum við laxa í neðanverðri ánni sem voru bjartir og greinilega nýkomnir.