ION, Þingvallavatn
Stórvaxinn urriði veiddur í vor á ION svæðunum í Þingvallavatni. Veiðin á svæðunum hefur verið lyginni líkast og meðalþunginn hærri en í flestum laxveiðiám.

Það hafa orðið þau tíðindi að ION hótelið sem hefur haft Þorsteinsvík og Ölfusvatnsvík í Þingvallavatni á leigu hefur samið við Iceland Outfitters, IO, um sölu á veiðileyfum á svæðin út þetta sumar og inn í haustið.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þessi umræddu svæði, en af mörgum góðum í Þingvallavatni þá eru þessi þau lang bestu, ekki bara í vatninu eða á Íslandi, heldur þótt víðar væri leitað, enda hefur hróður Þingvallaurriðans breiðst út um flest byggð ból þar sem fluguveiðimenn er að finna. Hér er fréttatilkynning sem okkur barst frá IO:

„Það er okkur sönn ánægja að segja frá því að Iceland Outfitters og ION Fishing voru að gera með sér samkomulag um sölu á ION svæðinu á Þingvöllum í sumar og í haust. ION svæðið er það urriðasvæði á landinu sem geymir langstærstu urriða landsins og jafnvel flesta líka. Þeir stærstu sem veiðast ná allt að 30 pundum. ION svæðið laðar að sér veiðifólk frá öllum löndum og skal engan undra því margir eru að veiða þarna stærstu fiska lífs síns.“

Undir þetta skrifa þau Harpa Hlín Þórðardóttir og Stefán Sigurðsson sem eru eigendur Iceland Outfitters.