Tungulækur til Icelandic Fly Fishermen

Tungulækur
Tekist á við vænan birting í Opinu í Tungulæk, þar sem áin mætir Skaftá um mjóa rennu.... Mynd -gg.

Tungulækur hefur skipt um eigendur og er nú kominn í almenna sölu hjá Icelandic Fly Fishermen, fyrirtækis Sigurðar Héðins (Siggi Haugur) og Ingólfs Helgasonar.

IFF mun sjá um sölu veiðileyfa og umsjón með svæðinu, en félagið er með vaxandi umsvif, leigir meðal annars Flekkudalsá á Fellsströnd. Tungulæk þarf vart að kynna fyrir lesendum þó að þar hafi kannski ekki margir veitt. En áin er líklega besta sjóbirtingsá landsins og þótt víðar væri leitað. Veiðisvæðið er aðeins milli 2 og 3 kílómetrar, frá ármótum við Skaftá og upp að fossi í Guðbrandsdal. Fossinn er ófiskgengur og eitt sinn stóð til að gera þar fiskveg. Mögulega verður rykið dustað af þeim fyrirætlunum, en það kemur í ljós.

Tungulækur er með ólíkindum veiðisæll og þar veiðast árlega um eða vel yfir þúsund fiskar á hverri vertíð, mest að sjálfsögðu sjóbirtingur, en jafnan nokkrir tugir laxa að auki og svo bleikjur og staðbundnir urriðar.

Kristinn Guðbrandsson, kenndur við Björgun, skapaði beinlínis á þessa, keypti jarðir og færði ána í einn farveg, en forðum daga flæmdist hún um eyrar og fékk ekki göngur nema í haustrigningum. Breytingarnar á farveginum sjást vart lengur og ræktunarstarfið bar þann ávöxt að áin er einstök í flórunni.

Ekki verður veiðihús við ána 2018, en bygging þess hefst þó með vorinu. Verður tilbúið fyrir vertíðina 2019. Það verður staðsett í Guðbrandsdal. Þetta er 4 stanga á á vorin og 3 stanga á á haustin. Aðeins er veitt á flugu og öllum fiski sleppt.