Kynslóðarskipti í Minnivallalæk

Minnivallalækur
Fallegur urriði. Mynd -gg.

Samkvæmt veiðibók eru komnir milli 50 og 60 fiskar á land úr Minnivallalæk það sem af er. Það er ágætis útkoma miðað við að forföll hafa orðið í nýtingu af ástæðum sem óþarfi er að rifja upp. VoV leit við í Lækjarmótum, veiðihúsi Minnivallarlækjar og gluggaði í bókina. Þar kom nokkuð sérstakt á daginn.

Það er reyndar fleira en eitt sem vekur athygli fyrir þann sem oft hefur komið í þessa á. T.d. eru frekar fáir fiskar komnir á land úr Stöðvarhyl og enginn úr Húsabreiðu. Þar lónaði þó mjög stór fiskur í ljósaskiptunum. Sást bara boðinn af honum.

Síðan er það þetta með stærðina á urriðanum. Minnivallalækur er frægur fyrir stóra urriða og mann grunar að genin séu ekki mjög óskyld þeim sem finnast í Þingvallavatni og sjóbirtingsám á Suður- og Suðausturlandi. Venjan er sú að í ánni veiðist nokkrir frá 70 cm og upp í nærri metereslanga drjóla. Nú er ekkert farið að bera á slíku. „Þetta er aðeins minna heldur en í fyrra útaf sókninni, en fiskurinn er líka smærri,“ sagði Þröstur Elliðason hjá Strengjum, leigutaki Minnivalalækjar í samtali við VoV.

Í veiðibókinni eru all nokkrir 50 til 67 cm urriðar. En enginn stærri. Það eru að verða kynslóðarskipti í ánni. Þeir gömlu eru dauðir eða að deyja í hárri elli, en góðir árgangar að koma í staðinn.