Michael Osby með glæsilegan hæng af Alviðrusvæðinu. Mynd Cezary.

Stórfljótin á Suðurlandi hafa verið hvað einna mest áberandi í veiði sumarsins, Eystri Rangá með sprengju, Urriðafoss góður og Ytri Rangá með fínan stíganda. Nú er Sogið að hóta að blanda sér í þetta og veri það velkomið í klúbbinn, þar hefur verið niðursveifla síðustu árin.

Félagarnir að landa laxi á Breiðunni ofan við brúna við Þrastarlund.

Fram að þessu hafa komið fréttir frá Árna í Ásgarði, góð skot þar. Allt að 10 laxar á dag og risableikjur í bland. Þá hafa Fish Partner-menn verið með statusa frá Þrastarlundasvæðinu að undanförnu en hingað til hefur það verið svæði sem hefur gefið skot þegar lax er að ganga. Og oft verið lítið og illa selt í það. En þegar veiðimenn fá að heyra að menn eru að setja í þá í Þrastarlundi, m.a. 102 cm Maríulax….og í kjölfarið kemur fregn um að „krökkt sé af laxi í Alviðru, þá fá gamlir Sogshundar netta gæsahúð.

Í gær var stórveiðimaðurinn Cezary að kanna stöðuna í Alviðru. Hann og félagi hans lönduðu fimm löxum og misstu annað eins. Svæðið var „krökkt af laxi“, eins og Cezary lýsti því við VoV. Laxarnir voru frá 70 og upp í 92 cm.

Nú er það svo að Alviðra hefur verið meira og minna ónýt síðustu árin, enda kosta leyfin þar skít og kanil. Þessi veiði Cezary og félaga hans er svipuð eða meiri heldur en heilu sumrin á stundum síðustu ár. Sogið hefur verið í öldudal, vissulega, en hvers vegna Alviðra tók upp á því að vera bara steindauð á meðan að veiðivon var þó ofar í áni, er erfitt að svara. En hvað sem því líður, þá er eitthvað mikið að gerast í Soginu þessa daganna og er það vel. Svo sannarlega.