Sandá í Þjórsárdal
Veiðimaður með fallega hrygnu úr Sandá fyrir skemmstu. Myndin er af FB síðu fishpartner.com

Til skamms tíma hafa hliðarár Þjórsár ekki verið hátt skrifaðar né beinlínis þekktar, en með tilkomu Urriðafoss sem stangaveiðparadísar vita nú fleiri um þá miklu laxgengd sem fer í Þjórsá. Og mikið af þessum fiski fer í hliðarárnar og hrygnir. Þá veiðist vel í þeim!

„Laxinn hefur verið að hallast inn í Sandá, vatnið hefur verið gott og laxinn bíður eftir því á haustinn, hangir úti í Þjórsá og kemur svo þegar skilyrði verða góð. Og það hafa þau verið og það er farið  að veiðast,“ sagði Kristján Páll Rafnsson hjá Fishpartner.com, einn leigutaka Sandár í Þjórsárdal.

Önnur hliðará er Fossá sem til skamms tíma var einkum fræg fyrir fossa sína Hjálparfoss og Háafoss. Nú vita allir að áin er með sterkar laxagöngur, en líkt og með Sandá þá kemur fiskur frekar seint í ána, enda er hún ofarlega í vatnakerfinu. En tími Fossár er nú kominn og staðfesti Guðmundur Atli Ásgeirsson leigutaki, að góðir dagar hefðu verið að undanförnu.

Það skyldi engum koma á óvart að vel veiðist í umræddum ám, og nefna má Kálfá einnig, þegar skoðaðar eru veiðitölur úr Urriðafossi, yfir 1200 stykki komin þar á land síðasta miðvikudag….