Í síðasta tölublaði Veiðislóðar, sem kom út um jólin 2014, sögðum við frá flugunni Frigga, svipmikilli túpuflugu sem að Baldur Hermannsson hannaði og hnýtti og skýrði í höfuðið á Friðriki bróður sínum sem að lést með sviplegum hætti á Viðeyjarsundi fyrir nokkrum árum. Þar lést einnig unnusta hans Matthildur Harðardóttir er hraðbát var ekið upp á Skarfasker og bakkað aftur af strandstað.

Báturinn var laskaður og sökk, en skipherran, Jónas Garðarsson, var dæmdur til betrunarvistar fyrir manndráp af gáleysi. Það vita það kannski ekki margir, en Baldur hnýtti ekki einungis Frigga, heldur líka Maddý og í sumar hefur hann latið hana nokkrum veiðimönnum í té og reynt hana sjálfur og hún hefur reynst frábærlega gjöful.

Friggi er reyndar óðum að verða ein gjöfulasta flugan og er sums staðar að slá Frances og Sunray af stalli. „Það hefur eiginlega orðið sprengin í sumar og hún er alls staðar að gefa vel, t.d. í Vatnsdalsá þar sem hægt er að fylgjast með framgöngu hennar í rafrænni veiðibók Vatnsdælinga. Friggi var þar gjöfulasta flugan 2016 og gaf vænan slatta af stærstu löxunum að auki.

Rifjum aðeins upp um Friggann úr umræddri grein okkar jólin 2014:  Til eru þeir fluguveiðimenn sem hafa horn í síðu Frigga. Segja hann ekkert annað en loðinn spún. Hann sé grófur og fæli laxinn. Þó eru mýmörg dæmi þess að menn setji í laxa eftir að hafa áður sett í fiska á Frigga. Í fyrsta skiptið sem Friggi var notaður sem laxafluga var í Núpsá í Miðfirði. Baldur var þá staddur við lítinn hyl og datt í hug að reyna Frigga. Hann tók þrjá laxa á stuttum tíma og í framhaldinu tvo í viðbót á litla Monroe Killer.

Síðan hafa margir gert frábæra veiði með þessari svipmiklu túpuflugu. Dæmi sem Baldur nefnir sjálfur eru t.d. ferð í Búðardalsá þar sem félagarnir komu að ánni illveiðanlegri þar sem hún var rétt að byrja að sjatna eftir flóð. En þeir fengu engu að síður 28 laxa, þar af 27 á Frigga. Þá nefnir Baldur holl í Laxá í Leirársveit sem var með 55 laxa, þar af 30 á Frigga. Og þannig mætti lengi telja. Sjóbirtingur er líka Frigga-tækur í fallvötnum Sunnanlands.

Stefán Kristjánsson með 105 cm lax á Maddý

Baldur hefur skráð Frigga hjá einkaleyfastofu og þar nýtur hann það sem Baldur kallar „innlenda hönnunarvernd“. Flugan gefur afar vel um land allt og í hinum ýmsu myndum. Gott dæmi er Vatnsdalsá á liðnu sumri(2015), þar sem flugan gaf nærri tíu prósent aflans og þar af fjóra af átta löxum 100 cm og yfir. Það eru hins vegar þekkt dæmi annars staðar frá að leigutakar láti bóka á aðrar flugur þegar sú sem veiddi var Friggi. Hún hefur því hjá sumum þennan ámóta stympil og Sun Ray Shadow og að einhverju leyti líka stórar Frances túpur. Það er fleira en þetta sem angrar hnýtarann og höfundinn. Hann segir:

„Flugan Friggi hefur verið kölluð og skráð í veiðibækur ýmsum rangnefnum sem mér finnst mjög miður. Hún hefur verið kölluð: Friddi, Frikki, Frigga og Slæðarinn.  Við Friðrik vorum ekki bara bræður. Við vorum vinir og veiðifélagar.

Í okkar síðasta samtali er hann var að stíga um borð í hina örlagaríku sjóferð, þá var ég að fá fréttir af veiði á Friggann, og ég sagði við hann að Friggi „flugan“ yrði frægari en hann sem lögmaður.“

Við þetta má bæta að ein veiðibúðin lét framleiða nánast fullkomna eftirlíkingu og seldi hana a.m.k. um tíma sem Trygga.

Það eru skyldleikar með Frigga og Maddý, báðar eru flugurnar tvívængjur, og Maddý fær þá eflaust sama loðspúnsstympilinn og Friggi. En það er samt munur á, Baldur segir: „Maddý er hnýtt með annarskonar búk. Það er bómull í búknum og ekki glimmer. Gull í kóni og vöfum og döbbing í afturenda. Með þessu held ég vængjunum betur aðskyldum þegar flugan er blaut og er að veiða. Maddý er komin í nokkrum litarafbrigðum líkt og Friggi. Ég hef líka skráð hana hjá einkaleyfastofnun líkt og Frigga, en ég hef lítið markaðssett hana til þessa. Það hefur þó verið hægt að kaupa hana í Veiðifélaginu í Nethyl og líka í Veiðivon. Síðan sel ég mikið beint til viðskiptavina,“ segir Baldur.

Og Maddý veiðir, ekki síður en Friggi. Á meðan að Friggi gaf tvo af fimm 110cm-plús löxum í Nesi, gaf Maddý all nokkra boltafiska, m.a. einn sem var 105 cm. Eflaust á hróður Maddýjar eftir að vaxa með meiri markaðssetningu og kynningu á kostum þessarar svipmiklu túpuflugu