Veiðivötn
Kvöldsól í Veiðivötnum. Myndin er úr myndasafni.

Fyrsta veiðivikan í Veiðivötnum kláraðist þann 25.júní og eftir vikuveiði var búið að færa til skráningar 2635 fiska, 1155 urriða og 1480 bleikjur. Þetta kemur fram á þeim ágæta vef Veiðivatna veidivotn.is.

Flottir urriðar úr Litlasjó, myndin er fengin af FB síðu hins ötula fluguhnýtara og veiðimanni Erni Hjálmarssyni.

Aflahæsta vatnið er Snjóölduvatn með 618 fiska, en vatnið er fyrst og fremst bleikjuvatn og bleikjur í aflanum 606. Fyrir vikið er meðalþyngd lítil, aðeins 0,66 pund og spurning hvort huga þurfi að grisjun.

Litlisjór er í öðru sæti og urriðavatn, 430 skráðir fiskar í vatninu eru allt urriðar, stærst 9 pund og meðalþyngd 2,59 pund. Nýjavatn er í þriðja sæti með 416 fiska en það er næstum hreint bleikjuvatn eins og Snjóölduvatn, 413 fiskar eru bleikjur. Meðalþyngd lág.

Hraunvötn eru með 260 urriða upp í 8 pund og meðalþyngd 1,95 pund. Þá er Eskivatn, hreint bleikjuvatn, með 236 bleikjur. Önnur vötn eru með færri skráða fiska. 9 pundarinn úr Litlasjó er ekki stærstur úr vötnunum, 10,1 punda kom úr Ónefndavatni og 10,5 punda úr Pyttlum.