Stefán Sigurðsson, Urriðafoss.
Annað sumarið í röð er Stefán Sigurðsson með fyrsta lax sumarsins. Glæsileg hrygna úr Urriðafossi og var talsvert líf á svæðinu. Myndin er frá IO.

Fyrsti lax sumarsins kom á land í Urriðafossi í Þjórsá í morgun, stórglæsileg ca 12-13 punda hrygna. Það var líf og fjör og búið að setja í nokkra laxa á miðjum morgni þó aðeins hafi tekist að landa þessum eina.

Urriðafoss
Urriðafoss í morgun, glímt við einn sem slapp á endanum. Mynd er frá IO.

Mikið vatn var í Þjórsá í morgun eftir endalausa vætutíð, en liturinn á vatninu var góður, enda lítil bráð í ánni eftir fremur svalt vorið eins og allir þekkja. Samkvæmt upplýsingum frá Hörpu Hlín Þórðardóttur, leigutaka svæðisins, höfðu veiðimenn við Urriðafoss sett í fimm þegar vaktin var um það hálfnuð, einum var landað en fjórir rifu sig lausa. Við heyrum aftur í veiðimönnum við Urriðafoss á eftir.