Þverá séð frá Helgavatni á fallegum sumardegi. Mynd TMD

Ekki heyrist mikið af ánum á Vesturlandinu. Þar hafa veiðitölur verið lágar og ekki að undra, vatnsmagn í sögulegu lágmarki frá upphafi vertíðar. En svo dúkka alltaf upp veiðisögur, því að ef það er fiskur, þá getur allt gerst og við fengum í kvöld fallega veiðisögu ofan úr Þverá, þar sem ástandið hefur verið erfitt.

Við bíðum auðvitað til að sjá hvað vikan er að skila erfiðustu svæðunum, en þó að heildarmyndin sé frekar döpur, þá eru veiðimenn að eiga góðar stundir á bökkum vatnanna, til vitnis um það er hinn þekkti veiðimaður Tarquin Millington Drake hjá Frontiers sem var að kveðja Þverá, þar sem hann hefur veitt árlega síðustu sumur.

Tarquin sagði að skilnaði: „Vertu blessuð Þverá þetta árið. Þrátt fyrir svo erfitt vatnsleysi þá hefur þú verið gjöful við mig og mína. Síðustu sex daganna hafa eigi færri en 9 Ma´riulaxar verið dregnir á land. Það er magnað! Þakka það frábæru teymi sem stýrir ánni.“