Svona er fiskurinn úr Heiðarvatni, fallegur og dásamlegur beint á grillið.

Ritstjóra langaði til að miðla eftirminnilegum veiðitúr sumarsins 2020 til lesenda okkar. Hér kemur það:

Fyrsti veiðidagurinn 2020 var kvöldstund í Vífilstaðavatni snemma í júní. Það var ekki á garðinn gefandi fyrr en þá, allan apríl og allan mai varð ekkert komist útúr húsi af ýmsum ástæðum. En svo var komið að því.

Sólin að síga eftir bjartan dag, en kalt og þar með var tónninn gefinn. Vöðlurnar höfðu nefnilega tekið uppá því um veturinn að gefa upp öndina, smituði ískalt vatnið yfir bæði lærin og niður leggina og á rúmum hálftíma var mér ekki vært lengur.

80 cm á leið til sjávar…..

Ég hafði þó kastað af elju allan tímann, sem og einir 8-10 aðrir veiðimenn. En enginn fékk högg. Þegar í jeppann var komið, reif ég mig úr vöðlunum og kom mér í föt og fíraði upp í miðstöðinni. Er ég raðaði dótinu í skottið kom á daginn að Loop jakkinn minn var horfinn. Ég hafði flýtt mér svo mikið að ég gleymdi að læsa. Eftir um það bil viku fór reiðin yfir þessu að síga í mig og blómstra. En þá kom jakkinn í leitirnar, hangandi á snaganum sínum í bílskúrnum. Ég hafði vissulega gleymt að læsa jeppanum, en stóra gleymskan var að gleyma jakkanum heima en halda samt að hann væri með hinu dótinu í skottinnu.

En allt um það. Aldeilis flottur opnunartúr!

Þess vegna var gaman að því að fá stuttu seinna tækifæri til að fara í Heiðarvatn í Heiðardal, ofan Víkur í Mýrdal. Það er mikill eftirlætisstaður okkar, hvort heldur við veiðum í vatninu á vorin, eða í ánni, Vatnsá, þegar kemur fram á sumar og haust. Bleikjan í vatninu er af góðri stærð og urriðinn einnig. Fiskar af báðum tegundum veiðast iðulega á bilinu 50 til 60 cm og staðbundnir urriðar geta náð mikilli stærð, sem og sjóbirtingar sem koma fremur snemma upp í ána og drífa sig gjarnan fljótlega upp í vatnið og dorma þar fram á haust. Að hrygningu lokinni geta þeir verið að damla í vatninu fram í júní, enda í miklu æti þegar hitastig hækkar. Þá er þarna auðvitað einnig lax, mismikið frá ári til árs, en yfirleitt nóg til að veiðimenn eru á tánum.

Við komum í dalinn þegar stutt var til kvölds og hann iðaði allur af lífi. Mófuglar af ýmsum gerðum og gól álfta og himbrma rötuðu niður að húsinu sem er um 3-400 metrum neðan við útfall árinnar. Sól farin að lækka á himni og birtan eftir því.

Þar sem lækjarspræna liðast út í vatnið að norðanverðu, er hægt að aka slóða í jaðri gamals túns. Og leggja bílnum á hæðinni þar sem sér niður að lækjarósnum. Vatnið var lognskyggnt og sama hvert litið var, alls staðar voru uppitökur.

Ég óð út, mjög hægt, og kastaði fyrst stutt. Var með einhverja púpu sem ég fann á bílaplani í Vopnafirði fyrir tveimur árum. Dökk græn með eldrauða kúlu. Hún fór fljótlega að gefa, en ekki með óðagoti. Tökur af og til og þegar þrjár bleikjur voru komnar í háfinn var skyndilega enginn áhugi. Á meðan ég skipti um flugu var mál að hlusta og horfa. Í kastfæri var himbrimi sem ýmist kafaði og veiddi og spangólaði á milli. Hópur af geldálftum við suðurbakkann voru með tónleika. Og það voru mikil tilþrif.

Peter Ross púpu afbrigði, sem ég merkilegt nokk fann á sama bílastæði í Vopnafirði, gaf þrjár bleikjur í viðbót og slatta af tökum. Svo kom ein bleikja á PT.

Þetta var töfrakvöld og ég hafði nýlega hugsað til þess að betra yrði það ekki, en þá breyttist eitthvað. Öðru vísi uppitökur, augljóslega stærri fiskar og mikil fyrirferð. Læti. Ég hélt eitthvað áfram með PT en það var enginn áhugi. Datt þá í hug að setja undir nokkuð groddalega Black Brahan straumflugu með „scull“ haus. Slengdi þessu út.

Og það hreif. Það voru ólgur á eftir flugunni og svo negling.

Og þannig gekk það, uns fimm fiskar voru komnir á skrá….sumir voru of stórir í háfinn. T.d. 80 cm birtingur. Alls komu fimm fiskar á land í þessari hrinu draumana, þrír birtingar, 56, 60 og 80 cm og tveir staðbundnir urriðar 49 og 55 cm.

Ég hef veitt mjög marga stóra birtinga um daganna, þá tala ég um 70 til tæplega 100 cm fiska. Marga að vori þegar þeir eru ekki í eins góðu líkamlegu ástandi og um sumar eða haust. En þó að maður hafi samt marga hildi háð við stóra vorbirtinga, þá var þetta eiginlega sú svæsnasta. Samt var þetta fremur þunnur fiskur. En krafturinn! Alls tók það mig gott kortér að landa fiskinum sem þrisvar fór út með alla yfirlínu og tvisvar langt inn í undirlínu líka. Þetta minnti á lýsingar manna af viðskiptum við þá stóru höfðingja í Þingvallavatni.

Birtingarnir fengu allir líf.

Kominn 9.júní, og enn birtingur á svæðinu? Eftir fimmta fiskinn gustaði nokkuð og uppitökur hættu. Ég kastaði um stund en þetta var búið. Ég hefði eflaust getað staðið eitthvað lengur yfir þessu, skipt um flugur. En það var allur vindur úr mér. Þetta var eitt af þessum augnablikum í veiðimannslífinu sem situr eftir. Fer í minningarbankann.

Ég sat lengi úti á verönd við kofann. Ætlaði aldrei að hafa mig inn að sofa. Það var lítið spáð í gömlu leku vöðlurnar eða jakkann sem að ég hélt á þeim tímapunkti að hefði verið stolið.

Gaulið í himbrimanum nánast svæfði mig, loksins drattaðist ég inn í kofa.

„Heili dagurinn“ tók nú við. Sól skein í heiði, stíf gola en í skjóli var bítandi mývargur. Það birtust óvænt iðnaðarmenn sem við vissum ekki um. Voru að mæla og gera klárt fyrir stækkun á húsinu. Þannig að við frúin og dóttirin eyddum deginum í annað. Ætluðum hvort eð er ekki að veiða aftur fyrr en um kvöldið. Þar sem engir túristar voru á svæðinu þótti okkur að deginum gæti verið vel varið í að skoða t.d. hina víðfrægu Reynisfjöru. Ekki sáum við eftir því, náttúran þar talar við mann í hástöfum og þetta er einn af þeim stöðum á Íslandi þar sem maður finnur fyrir smæð sinni. Ekki var síður gaman að aka inn eftir Kerlingardal, fínleg fegurðin og fuglalífið við lítinn læk þar snerti hjartað.

En svo kvöldaði.

Það var allt eins við vatnið framan af kvöldi nema að tökur voru dræmari og ekki fann ég fluguna sem myndi skila moki. Einn og einn fiskur á hina og þessa fluguna. Þegar fjórar bleikjur voru komnar í háfinn við lækjarósinn fannst mér að ég þyrfti að skoða víkina gömlu þar sem SVFK hafði veiðihúsin sín til fjölda ára. Þaðan á ég margar fallegar minningar, en skreppið þangað skilaði einungis einni lítilli bleikju.

Það var farið að kula þegar ég ók af stað í átt að kofanum…en nánast um leið og ég ók fram hjá afleggjaranum niður á tún þá fann ég að vindurinn dó alveg. Eins og vélrænt sveigði ég niður á tún, fram á hæðina og leit yfir vatnið við lækjarósinn.

Og sjá. Það voru læti. Ég hnýtti skjálfandi undir Black Brahan straumfluguna aftur og reyndi að vaða út eins varlega og mér var auðið í geðshræringunni. Ætlaði ævintýri fyrra kvöldsins að endurtaka sig?

Svarið var já.

Það var strax líf, ólgur, elt, hrifsað. Svo var hann á og síðan hver af öðrum. Fjórir, 48, 50, 53 og 63 cm. Tveir þeirra birtingar. Svo var eins og allt væri búið, ég kastaði ítrekað, en ekkert gekk. Ég tyllti mér og blés úr nös. Þetta hafði verið ótrúlegt. Nánast endurtekning frá fyrra kvöldi.

Vatnið virtist skyndilega steindautt. Engar uppitökur, aðeins fuglarnir, himbriminn, álftirnar, múkkarnir, mófuglarnir, duggandarpar. En ekkert á yfirborði vatnsins. En auðvitað voru þeir allir þarna niðri.

Ég íhugaði að ljúka þessum degi. Hugsaði, tíu köst enn, en hætti við, stóð upp og var við það að snúa að brekkunni og bílnum, þegar ég heyrði skvamp. Leit nógu snöggt við til að sjá ólguna.

Hún var ekki langt frá landi, ég óð varlega útí og slengdi flugunni út.

Hún var negld um leið. Við tók drjúg hörkuglíma við stóran fisk. Ekki jafn hörkuleg og brjáluð og við þann stóra kvöldið áður, en mögnuð samt, maður er jú með aðeins 6-7 punda taum í vatnaveiði að vori. Maður gerir ekki ráð fyrir svona skepnum nema að maður sé að veiða í Þingvallavatni.

Á land kom þessi fiskur. 80 cm hrygna, frekar þunn. Það hvarflaði að sjálfsögðu að mér að þetta gæti verið sami fiskurinn frá kvöldinu áður. En ég fór samt ekki að velta því fyrir mér fyrr en eftir á, þannig að ég leitaði ekki eftir því hvort að fiskurinn væri með nýtt sár í kjaftinum umfram kvöldsárið eftir fluguna.

Úr þessu mun ekki fást skorið. Engu skiptir. Þegar maður bjóst við því að birtingur væri fyrir nokkru horfinn af svæðinu þá fékk maður skyndilega sex og þar af tvo 80 cm, sem eru alvöru ísaldarurriðar