
Hrútafjarðará var opnuð seinni partinn á sunnudag, þá fékkst einn lax og svo annar í gærmorgun. Einnig veiddust nokkrar vænar sjóbleikjur og lax var víða að sjá í ánni.

Þröstur Elliðason leigutaki árinnar í nafni Strengja sagði: „Það komu tveir laxar á land í Hrútu í fyrradag og í gærmorgun, er formleg opnun var. Voru það vænar hrygnur 83 og 82 cm sem Nils Folmer Jörgensen fékk í Stokki og Bálki. Vart var við fleirri laxa og þar á meðal smálaxa sem er óvenju snemmt og lofar það góðu. Einnig fékkst eitthvað af sjóbleikju í Dumbafljóti sem er neðsti veiðistaður Hrútu. Vatn var ágætt en minnkandi og almennt góðar aðstæður.“