Eldvatn
Hér er Erlingur með tröllið, 88 cm! Myndin er fengin á FB síðu Eldvatns.

Skilyrðin hafa ekki verið sjóbirtingsveiðimönnum til sannrar gleði að undanförnu, ískaldar nætur, sól og stundum rok í þokkabót. Það gefur ekki, en það gæti rofað til á næstunni og svo stendur vertíðin til 20.október. Þó að lítið hafi veiðst síðustu daga hefur þó komið einn og einn, m.a. þessi risi, sem er einn sá stærsti á árinu, ekki bara í Eldvatni, heldur yfir landið.

Þessi kom sem sagt úr Eldvatni í vikunni og var það Erlingur Hannesson sem að setti í og landaði tröllinu í hinum fræga Þórðarvörðuhyl. Þessi hængur var mældur 88 cm og er án vafa um eða yfir 20 pundum. Ekkert þýðir að miða við laxakvarðann þegar sjóbirtingar eru annars vegar, sverleikinn er svo miklu meiri.