Líður að lokum – allur gangur á tölum

Norðurá, rétt ofan Glanna. Áin var hæstu plústöluna af sjálfbæru ánum. - Mynd Heimir Óskarsson

Nýjar vikutölur komnar í hús hjá angling.is, að mestu, og mörgum tölunum fylgir að um lokapunkt 2021 sé að ræða. Segja má að eftir síðasta sumar, sem þótti ekki sérlega gott en var þó veisla miðað við 2019, að sumar ár vinni „varnarsigur,“ sem sagt hækka sig frá síðasta ári, aðrar standa í stað, en margar eru líka lakari. Rennum aðeins yfir og rýnum í efsta hlutann.

Við sleppum Ytri og Eystri Rangá sem eru í efstu sætunum tveimur. Ytri með nokkurn bata en Eystri langt frá risaveiðinni í fyrra. En alltaf ósanngjarnt að miða við metveiði.

Miðfjarðará: 1709 laxar eftir 113 laxa viku. Magnað hvað Miðfjarðará heldur góðum standard miðað við aðstæður. Gaf i fyrra 1725. Enn veitt þar og flokkast sem varnarsigur.

Norðurá: Lokatölur þar 1431 lax miðað við 980 í fyrra, eða 451 lax í plús. Spurning þó hvað þessi uppsveifla hefði verið ef að skilyrði hefðu verið með þeim hætti að fiskur hefði stoppað meira í Straumunum, en þar var veiði mjög slök vegna gruggs í Hvítá.

Þverá/Kjarrá: Lokatölur þar 1364 laxar miðað við 1027 í fyrra, eða 337 stk í plús. Sami fyrirvarinn er þó settur og við Norðurá, þar sem Brennan var slök vegna ástands í Hvítá. En plús er plús.

Laxá í Kjós: Enn veitt og eftir 124 laxa viku þá stóð áin í 926 löxum, eða nánast sömu tölu og í fyrra, (929). Laxá í Kjós er sem sagt gott dæmi um eina af þessum ám sem mikið var talað um að „ætti mikið inni“ ef að skilyrðu leyfðu þeim að blómstra smávegis. Eftir þurrt sumar tók áin vel við sér með haustinu og vætunni. Aðeins veitt á sex stangir í sumar miðað við átta áður.

Haffjarðará: Komin lokatala, 914 laxar, sem er 213 laxa mínus frá síðasta sumri, 1127 laxar þá.

Langá á Mýrum: Stóð í 785 löxum eftir viku sem gaf aðeins 28 laxa. Langá gaf í fyrra 1086 laxa. Enn er veitt, en miðað við síðustu viku verður þetta talsverður mínus þetta árið.

Það leynir sér ekki að það er komið haust við Víðidalsá. Mnd Höskuldur Birkir Erlingsson.

Selá í Vopn: Talan þar hreyfðist ekkert milli vikna, 764 laxar þar og ef að það er lokatalan þá er það stór munur frá fyrra sumri þegar 1258 laxar komu á land. Mínus 494 laxar. Smá komment um Selá. Þar var hitabylgja í nær allt sumar, stangir færri, veiðidagar styttir um 4 klst og í fyrsta skipti veitt samkvæmt nýjum reglum sem miða beinlínis að því að draga úr álagi á ánni og fiskinum. Sveinn Björnsson, leiðsögumaður við Selá sagði okkur að vissulega hefði verið minna af laxi í sumar en t.d. í fyrra, en þar eystra einblíndu menn á að draga úr álagi á laxinn og þeim árangri sem væri að nást í uppræktun árinnar, t.d. hefðu um þúsund laxar gengið um stigann í neðri fossinum og um 200 upp þann efri. Svæðið þar fyrir ofan er friðað og allar götur síðan að fossinn var gerður laxgengur, hefur aldrei gengið jafn mikið af laxi upp fyrir hann. „Það tekur alltaf 10 til 12 ár fyrir ný svæði að byggjast upp,“ sagði Sveinn.

Næstu tvær árnar á listanum eru Laxá í Leir. og Laxá í Dölum. Enn er veitt í báðum. Vikugamlar tölur eru 755 úr Leirársveitinni og 712 í Dölunum. Sú fyrrnefnda þegar 155 löxum í plús frá í fyrra, hin enn 172 löxum á eftir. Laxá í Dölum er ein þeirra áa þar sem stöngum hefur verið fækkað.

Víðidalsá: Stingur nokkuð í stúf við aðrar ár á Norðurlandi. Þar er enn veitt og áin komin í 679 laxa eftir 50 laxa viku. Áin er nú 133 löxum hærri en í fyrra (546 laxar) og bætir örugglega einhverju við.

Elliðaárnar: Þar er lokatala 617 laxar sem er 52 laxar í plús frá síðustu vertíð (565 laxar) Fjölmargir sögðu frá því að mikið hefði verið af laxi í ánum.

Hofsá: Lokatalan komin þar, 601 lax sem er mínus upp á 416 laxa, en í fyrra komst áin í fjögurra stafa tölu (1017) í fyrsta skipti í all nokkur ár. En um ána gildir um margt það sama og sagt var um Selá, hitabyljga, vatnsleysi, breyttar aðferðir þó ekki hafi verið gengið eins langt og í Selá. En, það var líka minna af laxi.

Laxá á Ásum: Lokatalan hennar er 600 laxar, mínus upp á 67 laxa. Þannig að hún mallaði á líku róli og í fyrra. Vatnsleysi framan af sumri var ekki til að hjálpa til.

Látum hér staðar numið með rýningar, en getum þriggja þekktra áa sem hafa skilað inn lokatölum, í talnaröð:

Blanda 418(475), áin enn í vanda. Laxá í Aðaldal 401(388), áin enn í stórfelldum vanda, en í það minnsta hrundi hún ekkki um hundrað laxa eins og hún hefur gert á nánast hverju ári í seinni tíð. Kannski að botninum sé náð? . Loks Straumfjarðará, 370(308). Alveg ásættanlegt á þessum slóðum, en áin hefur þó farið mun hærra í góðum árum.