Þessi hefur marga fjöruna sopið!

Ekki var hægt að opna Geirlandsá þann 1.apríl eins og venja er, skilyrði og óveður sáu til þess. En í gær var opnað og þrátt fyrir að aðgengi væri erfitt komust menn á veiðislóð og veiddu gríðarlega vel. Og meðalstærðin var ofboðsleg, m.a. birtingur upp á 96 cm sem er sá stærsti sem við höfum frétt af það sem af er vertíð.

Gunnar formaður með þann stærsta, gamlan lífsreyndan hæng!
Arnar Óskarsson með einn vænan.

Við heyrðum í Gunnari Óskarssyni  formanni SVFK sem er fyrir austan sem stendur. „Vorum að opna í Geirlandinu í gær. Gátum veitt eftir hádegi til um 8 leytið um kvöldið. Erfitt að komast um svæðið og var ísrek fram eftir degi. Aðstæður breytast hratt núna eftir að hiti og sól ná að baka þetta yfir daginn. Erum 3 hérna á ferðinni og settum við í 43 í gær. Mikið af stórum fiski og erum við með fiska sem eru 87, 88, 89, 90, 91 og stærst 96 cm. Marga á milli 70 og 80 cm. Ótrúlegir fiskar, sem segir okkur að við erum að gera frábæra hluti við að hlúa að ánni og stofni hennar.

….og með gullfallega hrygnu.

Fossálar eru enn lokaðir þar sem allt vatn er enn frosið við húsið. Það þýðir það ekki er hægt að sinna hreinlæti eins og þarf á þessum síðustu og verstu.“