Þær voru að opna í morgun, ýmsar af bestu ám okkar. Menn voru að reyta upp fisk, en þetta voru engar risatölur. Yfirleitt voru menn þó sammála um að talsvert líf hefði verið, fyrir utan landaða laxa, töpuðust einnig nokkrir. En skoðum hvað ratað hefur inn á borðið á þessum tímapunkti.
„Áhugaverður morgunn. Sett var í 5 laxa og 3 var landað. Allir tóku þeir plast túbuna LOF en margt annað var reynt. 50 laxar voru gengnir upp í gegnum teljarann svo að menn ættu að reyna við staði ofar í ánni. Ekki var mikið af fiski á Breiðunni eða í fossinum. Slangur í Teljarastreng en allt getur breyst á næsta flóði…..Spennandi,“skrifaði Ásgeir Heiðar á FB síðu Elliðaárvina.
Á Langárbökkum var Vífill Oddsson með fjölskyldu sinni. „Við erum komin með 7 laxa. Það er fiskur að ganga, 79 hafa farið um teljarannn í Skuggafossi, þar af 41 síðan í gær, þannig að það er kraftur í þessu núna. Lax er komin víða um ána og við höfum fengið þá allt upp í Hrafnseyri sem er ekki langt neðan við Sveðjufoss,“ sagði Vífill.
Víðidalsá var einnig opnuð og þar var fimm löxum landað og nokkrir hefðu betur í samskiptum við veiðimenn. Lax var víða í ánni. Þá opnaðiYtri Rangá, en á FB síðunni West Ranga segir að morguninn var rólegur. Þó komu þrír á land, einn vel vænn, 88 cm, hinir smærri.