Veiðileyfasöluvefirnir raða á sig skrautfjörðunum þessa daga og vikur. Við vorum með nýjungar hjá veidi.is nýverið og nú bætir veiditorg.is við sig með frábæru urriðaveiðisvæði.

Erlendur Steinar, Elli Steinar, staðfesti við okkur að veiditorg.is væri komið með Arnarvatnsá í umboðssölu. Eftir sem áður væri heimafólk á Arnarvatni með ána á leigu, en salan væri komin á veiditorg.is. Arnarvatnsá er frekar vatnslítil kvísl úr Laxá í Mývatnssveit, leynir þó á sér og fær reynar vatn víðar að. Hún er gersamlega smekkfull af urriða sem er af öllum stærðum, frá tittum upp í tröll. Viðkvæm er hún og þarfnast lagni.
Og af því að við vorum að tala um veiðileyfasöluvefina, þá má bæta við að veida.is bætti nýverið við sig umboðssölu á júnídögum í Eystri Rangá. Þetta hafa þótt spennandi dagar síðustu ár, sérstaklega þegar göngur 2 ára laxa eru sterkar. Þetta er allt lax sem settur er lifandi í klakkistur. Fyrrum voru vinir og leiðsögumenn umsjónarmanns að sjá um þetta, en svo þótti tilvalið að hafa einhverjar tekjur af því og nú er þetta selt og er bálvinsælt.