Þorvaldur Danélsson t.v. og Ásgeir Heiðar með fyrsta lax sumarsins úr Elliðaánum. Mynd gg.

Opnun Elliðaána var lífleg í morgun, en afar óvenjuleg. Mikið af laxi hefur gengið í ána með vaxandi straumnum að undanförnu og má heita að kominn sé lax um alla á.

Dagur B.Eggertsson borgarstjóri kynnti að venju Reykvíking ársins sem að þessu sinni var Þorvaldur Daníelsson sem unnið hefur um árabil tengjandi heilsueflingu barna og hjólareiða. Hefur hann m.a. sex sinnum hjólað hringveginn með börnum.

Svo óheppilega hafði viljað til að Þorvaldur slasaði sig á öðrum fæti og gekk um á hækjum. Hann hefði því átt erfitt með að tylla sér á fossbrúnina góðu, en bæði vegna þessa svo í anda þess að í fyrsta skipti er aðeins veitt með flugu í ánum og öllum laxi sleppt, þá var tækifærið nýtt að fjöldi laxa var genginn upp fyrir fosss, m.a. höfðu yfir 50 gengið um teljarann þá um nóttina, að sögn Jóns Þórs Ólasonar formanns SVFR sem þarna var á vettvangi.

Ásgeir Heiðar leiðsögumaður sem fylgir ávalt opnunargestum hafði t.d. komið auga á þrjá í Teljarastreng. Þar tók fyrsti laxinn hitsaða smáflugu og Þorveldur þreytti hann af stól. Það var þó ekki búið því laxinn skaut sér niður fyrir steypubitana neðst í hylnum og þurfti að aðstoða veiðimanninn við að koma stólnum fyrir á nýrri víglínu. Gekk þar farsællega og var laxinum brátt landað. Þetta var mjög fallegur lax, vel ríflega 70 hrygna sem var eldspræka þegar henni var ýtt aftur út í ána.