Hnúðlax, Hólaá, Robert Novak
Robert Novak á þessa mynd af hnúðlaxi sem félagi hans veiddi í Hólaá við Laugarvatn sumarið 2017..

Það var á allra vitorði í fyrra að það var meira af hnúðlaxi í íslenskum ám heldur en verið hefur hin seinni ár. Þeir hafa verið hér viðloðandi um árabil, en í fyrra varð sprenging. Hér er magnaðasta sagan sem við höfum hingað til heyrt.

Talað hefur verið um tugi hnúðlaxa samanlagt vítt og breytt um landið. Sogið fékk t.d. á sig stympil í fyrra. En sú saga sem við heyrðum í dag er þannig að ástæða er til að hafa áhyggjur af aðskotadýri í íslenskum veiðiám.

Sum sé, við heyrðum af lítt þekktri laxveiðiá á norðausturlandi, Bakkaá í Bakkafirði sem er rétt norðan við Vopnafjörð. Áin er fræg fyrir stærsta stangaveidda lax Íslandssögunnar, 43 punda hoplax sem var að ganga til sjávar eftir þriðju hrygninguna. Líklega 50 pund í fullum herklæðum. En í fyrra var allt fullt af hnúðlaxi í ánni.

Flundra er að keppa um búsvæði neðarlega í ánum og sæsteinssuga er grunuð um innlit þó að aðeins hafi dregið úr áhrifum hennar. Og nú þetta. Bakkaá. Það veiddust hnúðlaxar í mörgum ám hér á landi á síðasta sumri og sumst staðar all nokkrir. Veiðimaður einn var í Bakkaá um mitt sumar og sá mikið af „haus og sporður“ neðst í hyl neðarlega í ánni. Hann skyggndi og sá torfu af hnúðlaxi. Tveimur dögum seinna kom veiðimaður og fékk fimm í beit í sama hyl.

Þetta er áhyggjuefni. Oft var fyrrum talað um að hnúðlaxinn væri bara neðst í ánum, klektist og gengi út þa strax um vorið og keppti því ekki um búsvæðin við laxinn okkar. Þetta hefur reynst vera „ónákvæmt“ enda veiddist hnúðlax síðasta sumar í Hólaá sem rennur úr Laugarvatni. Til upprifjunnar, hnúðlax er Kyrrahafstegund, en fyrir margt löngu vildu Rússar endilega gera tilraun til að auka framleiðni laxveiðiáa sinna. Setja í lax sem væri bara neðst og truflaði ekki aðal laxinn. Hann hefuir síðan veiðst um alla Evrópu og ef hann getur hrygnt í nágrannalöndum okkar þá er varla fyrirstaða að hann geti hrygnt hér.