Eystri Rangá, Jóhann Davíð
Fallegur smálax veiddur við Hrafnakletta í Eystri Rangá . Mynd Jóhann Davíð Snorrason

Veiði hefur verið prýðileg í Rangánum að undanförnu eftir fremur stirða byrjun sem þó getur vart hafa talist slæm. Aðstæður voru erfiðar, en auk þess virðist minna hafa verið af tveggja ára laxi en í fyrra. Þó er Eystri betri nú en þá, Ytri lakari.

Við heyrðum aðeins í Einari Lúðvíkssyni umsjónarmanni Eystri Rangár:  „Veiðin hefur gengið ágætlega í Eystri-Rangá eftir að klakveiðum lauk en klakveiðarnar gengu erfiðlega bæði vegna flóða og kulda. Áin hefur verið tær en köld og mikið brim við ströndina vegna suðlægra átta hefur eflaust tafið laxagöngur en samt hefur Eystri gefið 15-20 laxa á dag og mest um 50 laxa bæði í gær og fyrradag sem að er mun betra en í fyrra. Bæði stórklaxinn og smálaxinn eru mjög vel haldnir en athygli vekur hvað mikið er af smálaxi í aflanum en venjulega kemur ekki smálax fyrr en eftir 10.júlí. 2017 var 500 þúsund seiðum sleppt í Eystri-Rangá og gefur þessi fallegi smálax vonir um góðar heimtur.“

Undir þetta tekur Jóhann Davíð Snorrason, sölustjóri hjá Lax-á sem heldur utan um mikið af hásumarsleyfunum í Eystri. Sagði Jóhann Davíð í skeyti til VoV að áin væri mjög lífleg og betri en á sama tíma í fyrra. Það má til sanns vegar færa, því að síðasta miðvikudagskvöld, er angling.is birti vikutölur sínar var Eystri að skila 130 laxa viku og samanlagt 216, en á sama tíma í fyrra voru komnir 145 laxar á land

Ef að við skoðum Ytri Rangá í leiðinni, þá hefur veiði í henni einnig verið góð að undanförnu, síðasta miðvikudagskvöld kominn 401 lax á land eftir 193 laxa viku. Á sama tíma í fyrra voru komnir 570 laxar á land, þannig að það er lakara nú. Hins vegar eru smálaxagöngurnar sterkar að því er virðist þannig að það gæti jafnast út þegar frá líður. En tíminn sker úr um það.