Flottur birtingur úr Tungufljóti nú í vor.

Það var geðslegra við Tungufljót í dag. Veðrið gott, en stefnir í annað hret. Sex var landað í dag, allt vænir fiskar og það er fullt af fiski. Það verður veisla þegar fer að hlýna af viti.

Flottur fiskur úr Fljótinu í dag.

„Þetta var betra í dag, sex á land og slatti misstur. Veðrið miklu betra,“ sagði Sigurður Marcus, sem er að opna Tungufljót með vinum sínum. Veðurspáin er með þeim hætti að líklega verður lítið að frétta næstu daga, eins og við greindum frá í fyrri frétt þá er aðal veiðisvæði Geirlandsár lokað vegna ísalaga og í kvöld fréttum við að Fossálar væru óveiðandi vegna ísalaga.

Vetrarlegt við Tungufljót. Myndir frá Sigurði Marcusi.
Valgarður Ragnarsson með glæsilegan vorbirting úr Húseyjarkvísl.
Marteinn Jónasson með flottan urriða úr Stöðvarhyl í Varmá.

Önnur svæði hafa verið opin, svæði sem við höfum ekki fjallað um hingað til. T.d. Varmá, sem er svo hlý að hún leggur aldrei. Þar hafa menn sett í fiska og hlaupið svo inn í bíl í miðstöðina. Það er kannski ekki hlaupið að því í Húseyjarkvísl í Skagafirði, en þar var opnað 1.apríl og þar settu menn í fiska, m.a. þann ofboðslega fallega birting sem hér má sjá á mynd.