Fyrir þá sem vilja að læra að kasta eða bæta sig í fluguköstum þá er Spey snillingur að koma til landsins og ætlar að vera með námskeið fyrir byrjendur og lengra komna. Aðeins 10 pláss í byrjendanámskeiðið og 12 í fyrir aðeins lengra komna.
MacKenzie er goðsögn í fluguveiðiheiminum og gífurlegur fengur fyrir íslenska veiðimenn að fá tækifæri til að hitta hann, spyrja spurninga og þiggja ráð. Scott MacKenzie er þrefaldur heimsmeistari í Spey fluguköstum jafnframt var hann fyrirliði skoska landsliðsins sem urðu heimsmeistarar árið 2006. Scott hefur hin síðari ár einbeitt sér að kenna fluguköst og hannað sinn eigin veiðibúnað. Hann er hér á vegum Guðmundar Atla Ásgeirssonar og mun vera áberandi að auki í Veiðihorninu um komandi helgi. Á laugardag verður hann í verslun Veiðihornsins í Síðumúla. Þar mun gefast tækifæri til að ræða við meistarann sjálfan um stangir og veiðigræjur almennt. Klukkan 13 mun hann bjóða upp á kastsýningu. Á sunnudag verður hann með námskeið fyrir byrjendur og á mánudag tvö tvíhendunámskeið ætluð lengra komnum.