Hilmar Jónsson, Selá
Hilmar Jónsson leiðsögumaður er sáttur eftir að hafa háfað laxinn. Mynd -gg.

Eitt af því síðasta sem fram kom í fréttum af Kórónaveirunni var að utanríkisráðherra hvatti þá íslendinga sem enn eru erlendis og huga að heimferð, að drífa í því þar sem að líklegt væri að lokað yrði á allt flug til landsins um mánaðamótin. Fyrir utan þá vá sem hvílir yfir þjóðinni á meðan þetta gengur yfir, þá er VoV veiðivefur og við veltum fyrir okkur áhrifunum sem þetta kann að hafa á veiðileyfasölu.

Hvernig sem á þetta er litið þá verður sumarið 2020 eflaust talsvert/mikið högg fyrir marga veiðileyfasala. Ekki hvað síst þá sem selja silungsveiðileyfi að vori til erlendra veiðimanna, en umtalsverð aukning hefur verið í þeim túrisma síðustu sumur. Apríl og mai gætu orðið afar þungir ef ekkert er flugið ofaná þann ótta erlendra að ferðast hingað, eða raunar hvert sem er, burtséð hvort að möguleiki sé að fljúga hingað eða ekki. Síðan er það óvissan um hvað plágan mun standa lengi. Hvenær flugsamgöngur færast í eðlilegt horf og verða erlendir veiðimenn þá tilbúnir að koma. Það er mikið bókað, en allur gangur á því hvort að búið sé að greiða mikið eða lítið inná. Og síðan þetta þekkta, pöntun sem ekki hefur verið greitt inná. Svo mikil óvissa.

VoV reyndi að ná tali af veiðielyfasölum, en þeir vildu ekki úttala sig mikið að svo stöddu. Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Strengs, sem rekur Vopnafjarðarárnar sagði: „Við erum að sjá að þetta er að hafa áhrif en enginn sér í dag hver niðurstaðan verður. Get því miður ekki sagt meira í bili, við vonum bara það besta.“

Jón Þór Ólason formaður SVFR sagði stutt og laggott: „Það engin að fara á taugum hjá okkur, það eru miklu alvarlegri hlutir í gangi hjá þjóðinni. Menn þurfa hins vegar að fara varlega í allar fullyrðingar og getgátur. Við eins og aðrir erum að átta okkur á stöðunni.“

Þeir félagar segja svo sem ekki mikið, þ.e.a.s. í orðum, en orðin segja samt mikið, það er mikil óvissa. Aðrir leigutakar sem VoV ræddi við sögðu heldur meira en vildu fyrir vikið ekki vera nefndir. Dæmi voru um að menn spáðu að staðan væri þegar orðin þung hjá mörgum leigutökum, svo þung að ef ekki rættist úr fljótlega gætu menn séð fram á gjaldþrot. Þetta byggir á að erlendir veiðimenn afbóki sig og innlendir veiðimenn séu ekki tilbúnir að ganga inn í lausu hollin á þeim verðum sem að hinir erlendu hafa greitt. Og þá eru íslensku fyrirtækin sem hafa verið að taka við sér í veiðileyfakaupum síðustu árin eftir að hið nýja góðæri hlóð uppá sig, væru tæplega að fara að vera mikið með í þeirri miklu niðursveiflu sem nú blasir við. Þó er allt tal um möguleg gjaldþrot með þeim fyrirvara að leigutakar og veiðiréttareigendur ættu samtal, enda sameiginlegir hagsmunir, því ef að leigutaki færi á hausinn, hver ætti þá að taka við ánni? Hver myndi bjóða í útboði í framhaldi af því á meðan að á uppbyggingarstarfi stæði?

Eins og margsagt hefur verið, heimurinn verður ekki samur eftir hamfarirnar og uppbyggingin mun standa lengi. En sem betur fer kemur þó vorið og sumarið og fiskur mun vaka í vötnum og ganga í ár eftir sem áður. Vonandi að sem flestir geti átt góðar stundir vertíðina 2020.