Nýtt Sportveiðiblað og fullt af flottu efni

Kápan, Gylfi Þór búinn að skora.

Sportveiðiblaðið, vorblaðið er komið út. Fullt af flottu efni að vanda. Stangaveiði í framsætinu að þessu sinni, enda sú tíð að renna í hlað.

Gunnar Bender, ritstjóri, hefur alltaf verið gefinn fyrir drottingarviðtöl og þau eru tvö núna, bæði með íþróttaþema, enda eru viðmælendurnir Gylfi Þór Sigurðsson fótboltastjarna og Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, en þar hefur hann unnið hvert stórvirkið af öðru. Þórir er vanur veiðimaður, en Gylfi heldur síður þó að hann hafi alist upp við veiðar frá blautu barnsbeini. Viðtölin eru því nokkuð óhefðbundin fyrir Sportveiðiblaðið, blöndur af veiðispjalli og öðru viðeigandi sporti.

Það er nóg af öðru fjölbreyttu efni í blaðinu sem endranær, ekki hvað síst viðtal við Helgu Völu Tryggvadóttur sem er einn af stofnendum FUSS, Félagi ungra í skot- og stangaveiði. Það er mögulega áhugaverðasta ítemið í blaðinu, en fyrir utan hvað þar er á ferðinni skemmtileg veiðitýpa, þá segir hún frá því að hún sé að setja á stofn byltingarsinnaðan vef í sölu á veiðileyfum, salmonzon.is.