Hjálmar Árnason með pattaralega hrygnu úr Miðfellsfljóti í Laxá í Leirársveit. Slagveðrið leynir sér ekki og áin tók við sér.

Demburnar síðustu daga hafa svo sannarlega gerbreytt landslaginu á öllu vestanverðu landinu. Ár hafa vaxið, sumar rúllað upp í flóð, grugg og slýrek. Enn er spáð vætu næstu daga, þó ekki af sama krafti, en vonandi nóg til að viðhalda vatnsbatanum. Nú sjáum við væntanlega hvað árnar á þessum slóðum hafa átt mikið inni.

Breytingin nær frá nánast öllu Suðurlandi og langt austur eftir Norðurlandi. Stóra Laxá rauk t.d. upp og bíða menn nú með öndina í hálsinum hvort að lax hrannist þá upp í ána frá Iðu. Áin hefur verið vatnslítil og laxlítil í allt sumar. Spurningum verður svarað á næstunni, er eitthvað af laxi, eða bara lítið af honum?

Vestur í Borgarfirði er vert að geta þess að fram kemur á vef Veiðiflugna á Langholtsvegi í dag að Norðurá hafi rokið úr 5 rúmmetrum á sekúndu upp í 60 rúmmetra á sekúndu, eftir að hafa komist yfir 3 slíka metra pr sekúndu í nánast allt sumar. Þar verður spurningum einnig svarað um laxamagn og innistæðu þegar flóðið hjaðnar og búast má við að laxinn fari að taka. Allar ár á þessum slóðum fengu innspýtingu af vatni og þessar sömu spurningar hanga yfir þeim öllum. Öruggt er að mjög mun glæðast, en að hve miklu marki? Lengi hefur verið beðið eftir þessum svörum sem unu nú fást. Jákvætt má þó telja að á téðum vef Veiðiflugna er sagt frá því að menn hafi strax farið að setja í laxa í Laxá í Dölum og innanum hafi verið nýgengnir laxar. Sem veit vonandi á gott.

Svipaða sögu höfum við heyrt t.d. frá Laxá í Leirársveit og á vefnum veida.is segir frá 9 laxa holli í Hvolsá og Staðarhólsá í Dölum, en þær hafa vart runnið í sumar. Vikutölur á angling.is annað kvöld, veiðimenn bíða spenntir, en það er kannski samt þar næsta vikutala sem segir meira.En gott var að fá extra vatnið af himnunum. Þetta var orðið gott með þurrkana.