Farið að dofna aðeins fyrir austan, en enn er fiskur

Tungulækur, svartur Nobbler
Hausinn á 70 cm birtingi sem veiddist í Tungulæk í vikunni, ekki fer á milli mála að það var stór svartur Nobbler sem hann tók. Mynd Jón Eyfjörð.

Örlítið er farið að dofna yfir sjóbirtingsveiðinni í Vestur Skaftafellssýslu, allavega virðist hrygningarfiski hafa fækkað síðustu vikuna og kemur ekki á óvart á hlýju vori. Kíkjum aðeins á eitt og annað.

Eldvatn, Hnausar
Svona var veðrið og rétt grillir í Hnausa í Meðallandi í þokunni. Mynd Jón Eyfjörð.

Hluti okkar hjá VoV voru á ferð í vikunni. Litið var við í Eldvatni og aðeins bleytt færi í slagveðursrosa á þriðjudaginn. Urðu menn lítt varir, en heyrðu í Jóni Hrafni Karlssyni, einum leigutaka árinnar og kom þar fram að vorveiðin hefði verið betri en í manna minnum. Við skoðun veiðibókar kom í ljós að um 270 birtingar voru færðir til bókar, allt að 90 cm dólgar. Uppgangur hefur verið í ánni síðustu árin og spurning hversu hátt hún nær áður en jafnvægi er náð.

Fitjaflóð, Arnbjörn Arnbjörnsson
Veiði fór ágætlega af stað í Flóðinu í Grenlæk, hér er Arnbjörn Arnbjörnsson með fallegan geldfisk sem hann setti í. Myndin er fengin af FB síðu SVFK.

Þá var litið við í Tungulæk. Engin veiðibók er á staðnum en hermt er að vorveiðin hafi verið milli 600 og 700 fiskar og mikið af tröllum þar eins og annars staðar á svæðinu. VoV tók eina kvöldvakt í ánni þar sem óselt var og var átta landað. Þeir voru frá 45 og upp í 70 cm og vakti athygli að aðeins tveir voru hrygningarfiskar. Þeir eru farnir að hörfa í átt til sjávar, en eftir situr nokkuð af geldfiski.

Sjá má þessa þróun á árangri opnunarholls á svæði 4 í Grenlæk, svokölluðu Fitjaflóði. Þar var opnað 13.mai, eða s.l. mánudag og var góður hvellur, 54 á land. Heildarveiðin yfir fjórar vaktir í misjöfnu veðri skilaði hins vegar 75 fiskum, sem er fín opnun, en sýnir þó að seinni þrjár vaktirnar gáfu aðeins 21 fisk. Mjög líflegt var þó á svæðinu og engin ástæða til að ætla að þar verði einhver dauði og djöfull á næstunni, enda situr geldfiskur yfirleitt lengur á svæðinu en hrygningarfiskur.