Þessi glæsilega hrygna veiddist í Eystri Rangá. Myndin er fengin af veida.is

Það er greinilega líf og fjör á bökkum Eystri Rangár, nú undir kvöld var búið að landa 16 löxum og margir höfðu náð að hrista sig af. Allt vænn fiskur.

Eystri Rangá hefur getið sér orð síðustu ár fyrir snemmgengna stórlaxa og hefur það eflaust með ræktunarstarfið að gera, þ.e.a.s. að taka allan stórlaxinn í júní. Síðasta sumar gaf að vísu ekki sérstakt tilefni til að vænta stórra stórlaxagangna, en þetta lítur eigi að síður vel út svona í byrjun. 16 laxa töluna fundum við á veida.is sem sér um sölu hluta veiðileyfa, ásamt Jóhanni Davíð sem sér um helming leyfa fyrir sænsku leigutaka árinnar ásamt fleirum, t.d. Guðmundi Atla Ásgeirssyni. Svo að þessu sé öllu haldið tilhaga þar sem Jóhann Davíð var einn nefndur í fyrri frétt. En í þessum upplýsingum kom fram að lax er mjög dreifður um Eystri Rangá, umræddir 16 laxar veiddust á átta svæðum. Sum sé, lax um alla á.