Presthvammur
Rígvænn urriði úr Presthvammi. Mynd JEy

Á meðan að laxveiðiárnar hafa opnað hver af annarri hafa margir veiðimenn verið að huga að silungi enda er fleira fiskur en lax. Hluti af VoV hefur eytt síðustu dögum í Suður Þingeyjarsýslu á urriðaslóðum og hér er skýrsla.

Svartá í Bárðardal
Svartárurriðar þekkjast oft á skærbláum kinnalit!

Það hefur verið viðkoma í Kráká, Svartá, Staðar- og Múlatorfu, Presthvammi og Arnarvatnsá. Seinna í vikunni verða það Lónsá og Fnjóská.

Kráká gaf nokkra urriða. Hún er dyntótt og stundum er sagt að í henni séu fleiri veiðistaðir en fiskar. Sem er náttúrulega meira grín en alvara, en löng er hún og víða torfarin og slóðir villugjarnar. Þegar að veiðist eru það oftast vænir fiskar og svo var og nú.

Presthvammur
Veiðikofinn við Presthvamm. Hnn lætur lítið yfir sér en hefur verið mikið lagaður og er þægilegur til gistingar. Mynd JEy.

Við Arnarvatnsá var stoppið mjög stutt, en nokkrir náðust þar á land. Þrír eða fjórir, en ekki sérlega stórir þó ekki væri um titti að ræða. Svartá var full af fiski og mikið af vænum urriða. Þar náðust nokkrir góðir fiskar og var það ekki síst með notkun þurrflugna.

En mesta fjörið var í Múlatorfu og Presthvammi. Staðartorfan gaf dálítið og athygli vakti að þeir urriðar sem að VoV skráði í bók voru þeir fyrstu á vertíðinni, þannig að annað hvort hefur verið þar alger ördeyða til þessa, eða að veiðimenn eru ekki að flagga veiði sinni. VoV var á Múlatorfu í gær og var 16 fiskum landað.

Presthvammur
Sér yfir stóran hluta af veiðisvæði Presthvamms. Mynd JEy

Frábær dagur og komu fiskar á allra handa flugur, púpur veiddar andstreymis, straumflugur veiddar á hröðu strippi og einnig all nokkrir á þurrflugur. Þetta voru ágætir fiskar, mest á bilinu 40 til 50 cm. Stærstur var 54 cm urriði sem kom á svartan Nobbler. Á Torfunum var mikið af fiski og sama má segja um Presthvamm þar sem VoV einingin landaði ellefu fiskum í morgun, 40 til 53 cm. „Mjög mikið af fiski í Presthvammi og þar hefur líka sést lax skvetta sér nýlega þannig að hann er kominn á svæðið,“ sagði Jón Eyfjörð í skeyti.