Eldislax, Laugardalsá
Eldislax dreginn úr Laugardalsá s.l. sumar.

Guðmundur Atli Ásgeirsson leigutaki Laugardalsár við Djúp greindi frá því í vikunni að eldislax hefði veiðst á stöng í ánni, sem rennur til sjávar í innanverðu Djúpinu. Vissulega á Hafró eftir að greina dýrið, en af myndunum að dæma virðist það vera formsatriði.

Ekki beint frýnilegur „blessaður“.

Umræða um eldislaxa og slysasleppingar úr sjókvíum hafa tröllriðið umræðu um laxveiðimál hér á landi síðustu mánuði. Nokkur dæmi fyrr í sumar greindu frá eldislöxum í afla veiðimanna, þannig sagði Skessuhorn frá eldislöxum sem veiddust í Straumunum í Hvítá. Þá hafa hnúðlaxar og regnbogar veiðst úti um allar koppagrundir.

Nærtækast er að ætla að umræddur eldislax komi úr sjókvíaeldi á Suðurfjörðunum, en verður þó ekki fullyrt að svo stöddu. Ekki hafa borist fregnir um slysalseppingar þar svo að VoV reki minni til. Við værum til í að vera minntir á ef að við förum með fleipur þar. En dæmi þetta sýnir að eldislaxar geta synt um langan veg og ganga ekki einungis upp í ár í næsta nágrenni við sleppistað. Þá má geta þess að lax þessi var kominn langt upp í á, veiddist ofan við laxastiga sem er í ánni um kílómeter frá sjó. Laugardalsá er stutt og hrygnir villti laxinn í henni um allt, en þó lang mest ofan við téðan stiga. Guðmundur lét þess getið að sá er veiddi laxinn hefði skilað honum til Hafró til frekari greiningar.