Leirá, lax
Farið að bóla á smálaxagöngum. Mynd Stefán Sig.

Áhugamenn um laxveiðar hafa nánast haldið niðri í sér andanum það sem af er sumri á meðan hver sólstrandavikan tók við af annarri, árnar skruppu meira og meira saman og lítið bættist þann lax sem gekk eldsnemma í árnar. En nú hafa komið dembur, það er straumur og dimmt á nóttunni. Og fregnir berast um göngur.

Best samt að anda með nefinu og vona það besta. En í dag sagði Stefán Sigurðsson hjá IO veiðileyfum að það væri komið úrhelli í Dölunum, þar sem hann er staddur á bökkum Laxár. Það eru eitt og sér tíðindi.

Fleira? Já, veiðifólk um helgina sé ríflega 40 smálaxa, nýkomna á Klöppinni í Fnjóská og aðrir veiðimenn sáu smálaxagöngu renna sér upp í Kolbeinspoll í sömu á.

Hér sunnan heiða hefur frést af því að neðri svæði Úlfarsár og Leirvogsár séu nú full af nýgengnum smálaxi og 15.7 var stærsti göngudagurinn til þessa í Elliðaánum, 93 fóru upp fyrir teljara og voru þá komnir ríflega 700 laxar upp fyrir kistuna. Þetta er nú eitthvað.

Hvort að þessi rigning hreyfir að ráði við vatnsborðum stærri áa á borð við Þverá/Kjarrá og Norðurár, verður að koma í ljós, en þessar breytingar gera laxinn hugrakkari að ganga í árnar og fiskurinn fer að taka á betur, a.m.k. á meðan breytingarnar vara.