Hlíðarvatn, Einar Falur
Fallegar bleikjur úr Hlíðarvatni. Mynd Einar Falur.

Veiðimenn við Hlíðarvatn eru varaðir við veiðistað nokkrum, líklega sagt í með grín ívafi, en oft fylgir gríni einhver alvara og hún er tvíþætt að þessu sinni.

Sem sagt, Árni Árnason póstaði myndum og stuttum texta á FB síðu Hlíðarvatns í Selvogi í gær þar sem segir: „Himbriminn er kominn með hreiður í Litlu Hlíðarey þar sem gengið er út í hana úr Hlíðarey. Í gær var mikið um mý undir Hlíðinni. Nú fer minni fiskurinn að koma upp að landinu. Veiðimönnum er óhætt í Hlíðarey en eru varaðir við að fara út í þá litlu.“

Himbrimi
Himbriminn er „vopn“

Við sögðum að alvörutónninn væri tvíþættur. Í fyrra lagi þá er himbrimi afar viðkvæmur fugl og þó að hann sé áberandi þar sem hefur óðal, þá er stofn hans hér á landi ekki sérlega stór þótt hann haldi vel velli. Himbrimi er skringilega vaxinn, með fæturnar afast á búknum þannig að hann er nokkurn veginn ófær til gangs og verpir því á blá vatnsbakkanum þannig að hann geti rennt sér á maganum beint í vatnið. Staðsetning hreiðursins gerir það auðfundið og því viðkvæmt. Sjálfsagt að hvorki veiðimenn né aðrir angri hann við hreiður.

Í seinna lagi þá er alveg óhætt að vara menn við að nálgast himbrima á hreiðri, því að þeir eru stórir, sterkir og frábærir sundfuglar sem verja hreiður sitt af mikilli hörku. Nota m.a. til þess langan gogg sem er sem rýtingur. Til er saga um að himbrimi hafi drepið álft sem synti of nærri hreiðri hans, synti undir hana og holstakk í kvið. Þetta gerðist á Laugarbólsvatni fyrir mörgum árum og voru vitni að. Þegar álftin hafði rekið á land mátti sjá nokkur stungusár á kviði.´Önnur saga var um tófu sem synti út í hólma á tjörn einni þar sem himbrimi varpti. Þetta mun hafa verið á Tvídægru. Himbriminn synti undir hann og lagði til rebba, sem þó komst með herkjum til lands.

Þá hafa stangaveiðimenn lent í himbrimanum og þá með þeim hætti að þeir hafa kafað ógnandi í átt að fótum þeirra. Eitt sinn fyrir fáum árum var greint frá veiðimanni í Veiðivötnum sem þurfti að berja háfnum ítrekað í vatnið til að stugga himbrima frá fótum sínum.“

Þannig að já, menn eru „varaðir við“ að ónáða himbrimann í Litlu Hlíðarey á Hlíðarvatni.