Bullandi veiði í Tungufljóti

Sjóbirtingur, Varmá
Glæsilegur sjóbirtingur. Mynd -gg.

Eins og fram hefur komið eru veiðitölur af sjóbirtingsslóðum í Vestur Skaftafellssýslu með allra besta móti. Við fengum skýrslu frá Einari Lúðvíkssyni leigutaka Tungufljóts fyrir skömmu.

Þetta eru vikugamlar upplýsingar: Einar kíkti við og þá var kominn 291 fiskur á land, „sem er meira en heildartala síðustu ára“ að sögn Einars. „Vorveiðin gaf 150 fiska og haustið til þessa 140 fiska og mikið eftir.  Það er bara fluga í Tungufljótinu í Skaftártungum og öllum sjóbirtingi sleppt en það kemur sko ekki niður á veiðinni; opnunarhollið í Tungufljótinu 1.-3.sept. var með 35 fiska þar af 27 laxa. Það er óvenjumikið af laxi í Fljótinu þetta árið og hafði starfsmaður sem að sér um veiðihúsið fengið að skjótast í sumar og var kominn með 35 fiska og mest lax,“ bætti Einar við. Hann hafði enn fremur tíðindi af Þverá í Fljótshlíð sem hann hefur á leigu, „áin er komi í mettölu og stefnir í 400-500 laxa.“