Það er jafnan fjölmenni í Veiðihorninu á Simms dögum, sem eru nú hafnir. Myndin er frá 2018, mynd Jón Eyfjörð.

Veiðihornið stendur nú að venju fyrir Simms uppákomu. Allt fór af stað í dag. Veiðihornið gerir enn betur en áður með þeim hætti að nú standa Simms dagar yfir í viku í stað einnar helgi áður. Það stafar af C19 ástandinu, Veiðihornið vill dreifa álaginu þannig að færri verða í búðinni í einu.

Síðustu ár hafa erlendir sérfræðingar frá Simms komið hingað til lands, hitt íslenska veiðimenn og gefið góð ráð auk þess að starfsfólk Veiðihornsins hefur yfirfarið Simmsbúnað og lagfært og lappað uppá ef þurfa hefur þótt. Nú er ekki flogið landa á milli, Ólafur í Veiðihorninu var spurður út í hvernig Simms dögum yrði háttað þetta árið. Hann sagði:  „Sökum ástandsins komast erlendir sérfræðingar ekki að þessu sinni. Starfsfólk Veiðihornsins hefur þó fengið góða þjálfun og hefur mikla og langa reynslu og þekkingu af umhirðu og meðferð á Gore-tex vöðlum og veiðifatnaði. Þ.a.l. sjáum við sjálf um skoðanir og viðgerðir út vikuna. Já, við lengdum þetta í eina viku til þess að virða samkomubannið því við viljum ekki stefna of mörgum viðskiptavinum með eldri vöðlur til okkar í einu. Álagið verður því minna.

Við skoðum allar Simms Gore-tex vöðlur, gerum frítt við smávægilegar bilanir og sendum aðrar út á Gore-tex verkstæði Simms í Evrópu. Einungis Gore-tex vöðlur. Og einungis eitt par á mann. Allar vöðlur þurfa að koma hreinar og allar vöðlur þurfa að vera merktar. Þetta er eitt af því sem skilur Simms að frá öðrum merkjum án efa.