Einn á leið út Eldvatnið á ný, honum hefði hvort eð er verið sleppt! Myndin er af FB síðu Eldvatns.

Enn er sjóbirtingur í ánum og vel veiðist þegar skilirði eru fyrir  hendi. Vorið var frekar kalt, t.d. var ekki hægt að opna Geirlandsá fyrr en 9.apríl. Þó að veður hafi hlýnað síðan þá veldur þessi vorkuldi því að fiskur er lengur að tygja sig til hafs og mun veiðast vel fram í mai.

Við heyrðum í tveimur félögum sem voru á heimleið úr Eldvatni í dag. Þeir settu í nokkra fiska í morgun og lönduðum tveimur. Tveir sem voru í ánni í gær lönduðu sex fiskum. Viðmælandi okkar sagði fisk nokkuð byrjaðan að safnast saman á neðri svæðum, en þó væri líf upp eftir allri á og nefndi hann m.a. Hundavað, Þórðarvörðu og Feðga.

Þá var einn félaga okkar í Tungulæk í lok vikunnar, stoppaði bara stutt, en setti í all nokkra fiska og sagði hann augljóslega talsvert enn vera af fiski á svæðinu. Í Eldvatni, Tungulæk og víðar, t.d. Geirlandsá og Tungufljóti hefur verið óvenjulega mikið af stórum fiski í vor. Óvenjulega margir um og yfir 90 cm hafa veiðst og ekki þykir lengur tiltökumál að landa fiski yfir 80 cm.

Jón Hrafn Karlsson, einn leigutaka Eldvatns gerði upp aprílveiðina með þessum orðum: „Aðstæður til veiða í Eldvatni voru krefjandi fyrri hluta apríl. Það sem hefur einkennt veiðina þetta vorið er að sjóbirtingurinn hefur verið seinn af stað. Þegar þetta er skrifað 1 maí er enn verið að veiða sjóbirting á veiðistað nr 25, Réttinni. Miðað við núverandi stöðu teljum við að það verði hægt að veiða sjóbirting í Eldvatni langt fram í maí. Í apríl hafa komið á land 124 sjóbirtingar , sá stærsti kom á land í Hundavaði 89cm. Meðalstærð sjóbirtinga er 71cm !

Í Eldvatninu hefur staðbundinn urriði verið að eflast samhliða veiða & sleppa og hafa þeir verið að gefa sig síðustu daga , 9 urriðar hafa komið á land og sá stærsti var 72cm hrygna sem veiddist í Hvannakeldu. Meðal lengd veiddra urriða er 60cm.“