Nú höldum við áfram upphitun fyrir komandi vertíð, sem er undurstutt framundan. Nils var með flugur um daginn, nú kemur Ragna Sara Jónsdóttir athafnakona og framkvæmdastjóri hjá Fólk með demantsmómentið frá síðasta sumri. Það verður meira af þessu á næstunni.
„Eftirminnilegasta augnablikið frá veiðisumrinu 2020 er án efa tvær mínútur í níu takan sem ég fékk í Lundahyl í Þverá. Það var síðla í ágústmánuði og planaða veiðisumarið hjá mér að klárast. Næst síðasta vaktin og Ásdís veiðifélagi minn búin að kemba hylinn einu sinni.
Ég fór út í og þræddi mig samviskusamlega niður hylinn í átt að brúnni. Það var talsvert af vatni í ánni og ég komin óþægilega langt út í miðað við hvað það var að verða dimmt og hylurinn vatnsmikill. Það var líf í hylnum, talsvert af bleikju líka, enda nartað í fluguna nokkrum sinnum ofar í honum og fiskar að stökkva í kring. Ég var ekki búin að fá neinn fisk í þessari tilteknu veiðiferð, sem var kvennaveiði í góðra vina hóp. Það var mikið stuð í þessum hópi og svakalega góð stemming. Ég leit á klukkuna og sá að hún var fimm mínútur í níu. Ég hafði hrasað klukkutíma fyrr og dottið í ána þannig að hægri ermin var öll blaut og mér orðið ískalt. En ég ákvað að klára hylinn og hætta á slaginu.
Við Erik, gædinn minn, höfðum ákveðið að reyna rauðan Francis ¼ tommu cone á þennan hyl, bæði af því að við vorum í ljósaskiptunum og vegna þess að það var talsvert af bleikju í hylnum. Ég hafði séð fisk stökkva aðeins neðar og ákvað að renna yfir þann stað með línunni og hætta svo.
Þegar ég var einmitt komin á þann stað kom tog í línuna og búmm, hann var á. Ég fann að þetta var sterkur og stór fiskur en hann lét ekki sjá sig strax. Erik var farinn inn í bíl því þetta var nánast búið en hann var eldsnöggur á vettvang að hjálpa mér að landa þessum. Ég var að veiða á litla tvíhendu en línan var langt úti og það tók okkur um tíu mínútur að bakka í land og hala þennan væna fisk inn. Ég ætlaði sko ekki undir neinum kringumstæðum að missa þennan fisk, en hann var æstur og vel sterkur. Þegar við náðum að landa honum kom í ljós að þetta var 75 cm hængur, silfulritaður og fallegasti fiskur sem ég veiddi þetta sumarið.
Ég lifði á þessu augnabliki langt fram að jólum og get ekki beðið eftir að næsta veiðisumar hefjist. Er búin að negla niður nokkrar góðar veiðiferðir, þar á meðal aftur í Þverá, í Víðidalsá og í Svartá, svo þetta komandi veiðisumar verður eitthvað til að hlakka til!