Geggjuð byrjun í Tungulæk

Flottur birtingur úr Tungulæk í vikunni. Myndin er frá Streng

Sjóbirtingsveiði í Tungulæk hefur farið gríðarlega vel af stað og er í takt við önnur svæði þar eystra, t.d. Eldvatn, uppsveiflan er enn í gangi og mikið af stórum fiski.

Í gær var búið að veiða í Tungulæk í tíu daga og voru komnir 70 fiskar á land. Flestir stórir, um og yfir 65 cm. Þetta er frábær statistík í ljósi þess að á þessum árstíma fer lítið fyrir geldfiskinum sem oft rífur veiðitölur uppúr öllu valdi. Þeir sem veiða í lok ágúst og framan af september eru með meðalþyngd sem myndi sæma hvaða laxveiðiá sem er, og þá er átt við ár með hærri tölurnar.