Laxinn tekur heljarstökk, í Fosshylnum í Selá.

Á þessu bága laxveiðisumri hefur það vakið athygli að laxveiðiár á svæðinu frá Þistilfirði og niður í Hérðasflóa hafa annað hvort skilað betri veiði en á sama tíma í fyrra, eða að þær hafa tekið svo vel við sér eftir rólegar opnanir, að þar er nú fínasta veiði og fiskur að ganga af krafti. Hvernig skyldi standa á þessu?

Árnar í Þistilfirði eru með betri tölur heldur en á sama tíma í fyrra og Selá og Hofsá stefna hraðbyri í að skila betra búi en í fyrra. Selá raunar verið í sérflokki síðasta hálfa mánuðinn. Í Héraðsflóa hefur Jökla tekið vel við sér eftir rólega byrjun og hún gæti gert slíkt hið sama ef að ekki væri yfirfall yfirvofandi seinna í þessum mánuði.

Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Strengs, sem hefur með Selá, Hofsá og Miðfjarðará í Bakkaflóa að gera sagði eftirfarandi:  „Eins og staðan er núna þá er fiskur enn að ganga og svo virðist vera bæði í Selá og Hofsá; og raunar einnig í Miðfjarðará í Bakkafirði. Það var ljóst eftir sumarið í fyrra að mikið af seiðum gekk til sjávar: „með stærri árgöngum“ að sögn fræðinga. Við áttum því von á stóru ári. Eins og er vonumst við eftir að fara vel upp fyrir meðaltalið. Vatnsbúskapur hér í Vopnafirði er með þeim hætti að þó ekki rigni mánuðum saman er alltaf nægilegt vatn í ánum. Við hjá Veiðiklúbbnum Streng höfum á undanförnum árum lagt ómælda vinnu og fjármuni í uppbyggingu búsvæða, sennilega erum við að sjá afraksturinn af því núna.“