Rígvænn urriði úr Minnivallalæk þann 30.apríl s.l. Myndin er fengin af FB síðu Strengja.

„Það hefur verið kalt og erfitt í Minnivallalæk í vor. Þetta er staðbundinn urriði sem að bíður eftir hitastigi og að lífríkið í ánni taki við sér, ekki glorsoltinn sjóbirtingur sem ræðst á allt sem hreyfist,“ sagði Þröstur Elliðason leigutaki Minnivallalækjar í samtali við VoV í dag. En veiðin er samt að glæðast.

Landsmönnum hefur þótt vorið vera að halda innreið sína eftir kuldann í byrjun og framan af apríl, en langt inni í landi, í Landssveit, er kalt þó að það hylli undir tveggja stafa hitatölur á höfuðborgarsvæðinu. Það hafa verið norðanáttir og kuldi. Samt hefur verið kropp og í vikunni komu t.d. átta á land á einum degi, þeir stærstu 65 og 68 cm sem eru langt frá því að vera tittir.

Þröstur sagðist reikna með því að veiðin myndi bara batna héðan af, nóg væri af fiski í ánni og þeir stóru á sínum stað. Í færslu á FB stóð þetta hjá Strengjum:

„Þær halda áfram að koma góðu fréttirnar úr Minnivallalæk en Ómar Smári Óttarson og félagi hans áttu frábæran dag og lönduðu alls 8 flottum urriðum. Stærsti urriðinn var 67 cm bolti og er það þriðji fiskurinn í þeim stærðarflokki á örfáum dögum. Fiskarnir tóku víðsvegar um ána og urðu þeir varir við fiska á flestum stöðum. Sumir fiskanna, t.d. sá stærsti, fengust á ómerktum stöðum en í tæra vatninu gátu veiðimennirnir séð fiskana og kastað á þá. Fiskarnir komu allir á squirmy worm og rektor nr. 8. Ómar og félagi notuðu langa, granna tauma og tóku löng köst til að styggja ekki fiskana, en það borgar sig heldur betur að fara varlega þegar veitt er í svona kristaltæru vatni.“