Þorgils Helgason með vígalegan 80 cm hæng úr Leirvogsánni.

Það er ekki ýkja langt síðan að farið var að bjóða vorveiði á sjóbirtingi í Leirvogsá, en birtingurinn hefur verið að styrkja stöðu sína á vestanverðu landinu síðustu ár. Leirvogsá er þar engin undantekning. Við heyrðum í Þorgils Helgasyni sem átti þar eftirminnilegan dag í blíðviðrinu í vikunni.

Annar félaga Þorgils með fallegan birting við gömlu brúna.

„Já þetta var fallegur dagur. Besti dagurinn veðurlega séð post covid,“ sagði Þorgils í samtali við VoV. „Við lönduðum og slepptum 5 sjóbirtingum og „slepptum“ 2 til án þess að landa þeim. Geggjaður dagur í sól og vorblíðu. Sáum og fengum fiska í Birgishyl, Hornhyl, við Gömlu brú og Neðri Skrauta. Þeir sem við mældum á landi voru 55,64,65,66 og 80 cm. Þeir „misstu“ voru um 70 og um 65cm. Áin fór svo í kakó um klukkan 17 út af snjóbráð. Svo við Veiddum í raun aðeins um 4-5 tíma,“ bætti Þorgils við, en veiðifélagar dagsins voru Sverrir Þór, Ólafur Ragnar og Sigþór Steinn. Birtingarnir voru að taka andstreymisveiddar púpur, PT, Copper John og Squirmy. Einn misstur tók Black Ghost.

Veiðifélaginn að glíma við einn vænan við gömlu brúna.