Sá stærsti, 86 cm.

Eftir að vorið fór að láta heyra í sér síðustu daga hefur komið á daginn að í flestum ef ekki öllum helstu sjóbirtingsám landsins er mikið af fiski og ekki bara mikið af fiski, heldur mikið af stórum fiski. Ein þessara áa er Tungufljót í Vestur Skaftafellssýslu. Við heyrðum í Kristjáni Páli Rafnssyni, sem er leigutaki árinnar í nafni Fish Partner, en Kristján var að koma úr ævintýragri ferð í Fljótið.

Kristján Páll með glæsilega hrygnu.
Birkir Mar Harðarsson með sleggju við Syðri H+olma.

„Við erum búnir að upplifa þvílík ævintýri. Ætluðum sem fullmannað en enduðum á því að fara bara tveir og byrjuðum síðdegis á miðvikudaginn og vorum strax í fiski við Syðri Hólma. Þar veiddum við vel og líka í gær, en það var rólegra í morgun. Þeir sem tóku við af okur voru strax samt komnir með fjóra eftir fyrstu tuttugu mínúturnar. Við lönduðum 63 birtingum og veiddum líka vel á Flögubökkum, auk þess sem við veiddum nokkra fiska við Gæfubakka og við brúna, meðfram klettinum að vestanverðu.

Flögubakkar gáfu líka vel, m.a. stærstu fiskana.

Auðvitað voru slápar inn á milli, en þorrinn af fiskinum var í ótrúlega góðu formi. Það voru mjög stórir fiskar þarna, þeir stærstu 80 til 86 cm en megnið í kringum 70 cm. Svo var líka slatti af björtum, feitum og flottum geldfiski, 4 pundurum, ég fékk líka síðasta morguninn einn 70 cm sem ég held að hafi verið geldfiskur, silfurbjartur og feitur eisn og nýgenginn,“ sagði Kristján Rafn.

Birkir með annan flottan….

Aðspurður um flugurnar sagði Kristján: „Sökkendar og straumflugur. En þegar á leið fórum við að reyna andstreymisveiddar púpur, bara til að breyta til og það gekk líka.“