Konur í hlutverki veiðileiðsögumanna eru ekki margar á Íslandi þó að þeim fjölgi í hópi stangaveiðimanna. Hvað þá að erlendar konur stundi hér leiðsögumennsku, en það er samt tilfellið í Kjósinni. Á bökkum Laxár í Kjós hefur ung kona frá Tékklandi, Katka Zvagrová stundað leiðsögumennsku síðustu sumur og þykir hún bæði frábær í starfanum auk þess að vera snilldargóður fluguveiðimaður.

Sérgrein hennar er að tæla laxa og sjóbirtinga með því að veiða andstreymis með púpum. Katka hefur auk þess kept í köstum í heimalandinu og víðar með firnagóðumárangri. VoV heyrði aðeins í Kötku áður en hún hvar af landi brott síðast liðið haust, en þá hafði nýlokið við að landa tveimur af stærstu urriðunum sem veiddust í Þingvallavatni á árinu.

Segðu okkur eitthvað um þig, hver ertu og hvaðan?

„Ég kem frá rótgróinni fluguveiðifjölskyldu. Þar sem ég er dama gef ég ekki upp aldur minn, en ég er nógu ung til að eiga fyrir mér þó nokkur ár í fluguveiðinni og leiðsögumennsku áður en ég róa mig og stofna til fjölskyldu. Ég er frá Tékklandi og fluguveiði hefur alltaf fylgt minni fjölskyldu. Amma og afi voru meira að segja bæði fluguveiðimenn þannig að á fæðingardaginn var það ákveðið að ég myndi halda áfram á þeirri braut.“

Með glæsilegan sjóbirting í Kjósinni.

En hvenær byrjaðir þú að veiða, sem barn eða síðar? Voru það maðkur og spónn í fyrstu, eða strax fluguveiði?

„Ég man nú ekki nákvæmlega hversu gömul ég var þegar ég byrjaði að veiða, en það er til alvöru myndband af mér fjögurra ára gamalli, standandi á steini úti í á, að kasta flugu og ég set meira að segja í silung á myndbandinu og landa honum. Miðað við þetta myndband hef ég verið innan við fjögurra ára þegar ég fór fyrst að veiða. Ég veiddi alltaf fyrstu árin með öllum þeim aðferðum sem í boði voru þar sem ég var alin upp sem veiðimaður  en ekki nútíma fluguveiðimaður. Fluguveiðin var samt alltaf uppáhaldið mitt. Ég man vel eftir fyrsta urriðanum sem ég veiddi á flugu, en er þó ekki viss um að ég muni það uppi í höfðinu í alvöru eða hvort að ég man það vegna þess að pabbi minn sagði mér frá því. Við vorum að veiða saman í á nærri heimili okkar og pabbi útbjó fyrir mig litla stöng úr helsihnotu. Hann hnýtti stuttan taum á endan og leyfði mér að velja flugu úr boxinu hans. Þar sem ég var skrýtinn krakki þá valdi ég skrýtnustu fluguna í boxinu, stóra græna engisprettu (engin önnur fluga lík henni í boxinu) og fékk urriða bara strax á fluguna, hann tók við bakkann, nánast í harðalandi. Saga mín og engisprettunnar er þó ekki þar með lokið. Þegar ég fór í mína fyrstu veiðiferð til annars lands, til Ástralíu 2014, dvaldi ég þar fyrst í tvo mánuði í læri hjá einum af þeirra frægustu leiðsögumönnum Jono Shales. Þegar ég var að leggja í ‘ann gaf pabbi mér engisprettuna sem svona happagrip. Hann sagði mér að hann hefði passað vel uppá fluguna frá því að ég veiddi fyrsta fiskinn minn á hana og að hann hefði alltaf passað að hafa hana með sér á veiðum. Síðan hefur græna happa engisprettan mín fylgt mér til veiða í tuttugu löndum og mér finnst að veiðigæfa mín sé fólgin í þessari engisprettu.“

Hvenær komstu fyrst til Íslands og hvernig atvikaðist að þú fórst að leiðsegja í Laxá í Kjós?

„Ég kom fyrst sumarið 2016 og veiddi þá í Þingvallavatni og þegar ég kom aftur árið 2017 fékk ég þá hugmynd að það gæti verið gaman að vera leiðsögumaður á Íslandi. Ég var með smá reynslu í leiðsögn frá heimalandi mínu, einnig í nokkrar vikur í Suður Afríku, en aldrei í fullu starfi yfir heilt veiðitímabil. Það hafði lengi verið draumur minn og sem betur fer rættist sá draumur þegar þeir hjá Hreggnasa buðu mér að leiðsegja í Laxá í Kjós. Ég verð þeim alltaf þakklát, að sýna erlendri konu svo mikið traust í þessu starfi.“

Það er mikið af vænum birtingi í Laxá í Kjós og þeir eru uppáhöld Kötku.

Hvers vegna að dreyma um þetta starf, hvað er það við leiðsögumennsku sem heillar þig?

„Eins og ég kom að áðan þá hafði mig dreymt um þetta nokkuð lengi og það var ein af megin ástæðunum fyrir því að ég fór til Ástralíu. Til þess að læra  og skilja leiðsögumennsku. Þegar ég var loks farin að starfa snemmsumars 2018 var ég með minn fyrsta veiðimann, Simon heitir hann, við Laxá og þegar hann loksins setti í og landaði fyrsta laxinum sínum fann ég það sterkt að ég var fædd í þetta starf. Jafnvel að vera sjálf að veiða og setja í fisk og landa honum veitir mér ekki eins mikla gleði og að sjá brosið á kúnnanum þegar hann er búinn að landa fiski og læra eitthvað nýtt um ána. Leiðsögumennirnir í Kjósinni eru frábær hópur og það er alltaf góður andi. Þá er afi allra leiðsögumanna, hann Gylfi (Gautur Pétursson) alltaf að kenna mér allt sem hann kann og þekkir auk þess að fræða mig um land og þjóð. Það er mikil stoð í honum. Svo spillir það ekki að vinnudagarnir fara fram úti í fallegri náttúrunni.“

Það er mjög fátítt á Íslandi að veiðileiðsögumenn séu ungar konur, hvernig bregðast viðskiptavinir við þér? Eru þeir kurteisir, vantrúaðir?

„Oftast er þetta allt saman bara fínt og sjálfri hefur mér fundist það frekar jákvætt. En ég neita ekki að það hefur komið fyrir að veiðimenn hafi verið eitthvað skrýtnir í framan. Sérstaklega eldri karlar frá Bretlandi.Þeir hafa þó róast fljótlega. Ég var einu sinni með karl á níræðisaldri. Hann hafði stundað laxveiðar alla sína ævi, en aldrei upplifað að leiðsögumaðurinn væri kona. Hann var einn af fyrstu viðskiptavinum mínum og ég hitti hann fyrir framan veiðihúsið, gekk upp að honum og kynnti mig, sagði honum, „ég er nýi leiðsögumaðurinn þinn“. Hann horfði á mig dálítið forviða og sagði bara „hmmmmm“. Ég man það enn, að hann fylgdist með mér og virtist vera að spá í hvort og hvernig þessi kona gæti orðið sér til aðstoðar við ána. Hann spurði mig síðan, „hvað hefurðu unnið hér lengi?“ „Eina viku“, svaraði ég. „Heldurðu að þú þekkir ána nægilega vel?“, „Já auðvitað,“ svaraði ég! Eftir fyrstu vaktina vorum við komin í Bugðu og þar kenndi ég honum frönsku aðferðina við púpuveiðar og hann skemmti sér konunglega. Næstu daga veiddi hann vel og þegar hann kvaddi sagði hann, „ég kem aftur Katka og vil að þú verðir leiðsögumaðurinn minn“. Á þessum punkti leið mér afar vel og þetta var líklega augnablikið þar sem ég fékk mitt fyllsta sjálfstraust í starfinu. Og jú, hann kom aftur að ári.“

Með fallega hrygnu úr Laxá.

Nú var síðasta sumar afar erfitt í Kjósinni og víðar, afar lítið vatn, sólskin og slakar laxagöngur. Taka leiðsögumenn það inn á sig, kenna veiðimennirnir ykkur um?

„Já, sumarið var afar erfitt vegna vatnsleysis og lélegra laxagangna, en mér finnst að við höfum höndlað ástandið nokkuð vel. Að sjálfsögðu eru innan um veiðimenn sem koma til þess eins að setja í fisk og eru ekki ánægðir ef að það mistekst. Flestir koma þó fyrir allan pakkann. Til að hafa gaman, borða góðan mat, kynnast nýju fólki, læra eitthvað nýtt. Svo ef að það tekst að setja í einhverja fiska þá halda menn til síns heima með bros á vör og allir af vilja gerðir að koma aftur að ári. Vonandi verður 2020 frábært sumar!“

Þú ert sjálf með veiðidellu, færðu tækifæri til að veiða eitthvað sjálf í Kjósinni?

„Það kemur fyrir. Það er mikilvægt að leiðsögumennirnir geti skroppið í ána af og til, það eykur bara á þekkingu þeirra á ánni. Samt ætla ég að reyna víðar þegar ég á frídaga. Þó verð ég að segja að ég er bara glöð að leiðsegja sem mest, því líf mitt, eftir að ég hverf frá Íslandi á haustinn, snýst alfarið um að fluguveiða útum allan heim.“

Með viðskiptavini og stórlaxi.

Landaðirðu einhverjum löxum síðasta sumar, og hvað með þessa andstreymsveiði sem þú er orðuð við….og hvaða flugur virka best í vatnsleysinu?

„Já, ég landaði nokkrum löxum og sumir þeirra voru vænir, yfir 80 cm. Ég fékk þá alla með því að kasta púpum andstreymis. Phesant Tail í stærðum 14 og 16. Þessar litlu pöddur eru eitraðar fyrir alla laxfiska. Yfirleitt er þó ekki þörf á því að nota þær fyrr en það fer að halla sumri og vatn að minnka. Þá verða laxfiskar varari um sig og taka verr. Síðasta sumar var þó óvenjulegt að því leyti að vatnsleysið var erfitt nær allan veiðitímann og þess vegna vorum við að nota púpurnar meira og minna allt sumarið.“

Það hefur verið haft eftir þér að sjóbirtingurinn sé í mestu uppáhaldi hjá þér, hvers vegna er það?

„Já það er rétt, í Kjósini er sjóbirtingurinn mittt uppáhald. Þeir eru mjög sérstakir, snjallir, fælnir og gríðarlega sterkir þegar maður hefur sett í þá. Það er alvöru áskorun að eiga við þá og þannig vil ég hafa mína fluguveiði.“

Lokaspurning, kannski óþörf: Kemurðu aftur í Kjósina að ári?

„Svo sannarlega. Ég get ekki beðið“