Norðurá – enn fegurst áa

Svona lítur bókin út.

Jón G. Baldvinsson, sá margreyndi veiðihöfðingi, hefur víða veitt á löngum ferli. Norðurá er þó hans stóra ást og hefur alltaf verið. Nú er hann búinn að skrifa fallega bók um ána, Norðurá – enn fegurst áa, og á morgun verður útgáfuhóf í Veiðiflugum á Langholtsvegi.

Jón sagði í samtali við VoV að hann styðjist að stórum hluta við dagbækur sem hann hefur skrifað í veiðitúrum sínum allar götur frá því hann byrjaði að veiða fyrir „all mörgum“ áratugum síðan. „Eddi rafvirki, minn góði vinur, byrjaði á þessum dagbókarfærslum og ég apaði það eftir honum. Það ættu allir að færa veiðidagbækur. Þegar árin líða verða þær ómetanlegar í minningunum. Ég notaði dagbækurnar mínar til að vera klár með ártöl og dagsetningar á atburðum sem að ég setti inn í textann,“ sagði Jón.

Jón G. Baldvinsson á góðri stund við Norðurá. Mynd Óskar Páll Sveinsson.

En hvernig byggir Jón bókina upp? „Ég fer með lesendum um alla ána, frá efsta veiðistað sem miðast við brúna hjá Fornahvammi og niður fyrir Munaðarnes. Staldra við hvern og einn veiðistað og segi hvernig á að veiða þá og krydda með veiðisögum og atburðum sem þar hafa átt sér stað. Bæði kemur það úr eigin reynsluheimi auk þess sem ég fletta inn efni sem tengist öðrum veiðimönnum.“

En hvers vegna Norðurá og hvað gerir hana svona sérstaka í huga Jóns G. Baldvinssonar?

„Norðurá er bara svo ótrúlega falleg og góð laxveiðiá að auki. Annars fékk ég Norðurá snemma á heilann. Svona upp úr fermingu, þegar ég var að byrja að veiða, var ég farinn að garmsa í Veiðimanninum og þar var Norðurá fyrirferðamikil. Ég heillaðist og sá ána í hyllingum. Svo stóð hún undir öllum væntingunum þegar ég kynntist henni loks.“

Nú hefur Norðurá verið í nokkurri niðursveiflu síðustu sumrin, hvað finnst Jóni um stöðu árinnar í dag? „Það er ekki bara Norðurá, það hafa allar ár verið í niðursveiflu og ég er hræddur um að þær fái allar mikinn skell fyrr eða síðar, ef að þetta óhefta opna sjókvíaeldi heldur áfram. Þar hefur náttúran tapað fyrir peningaveldinu. Það er bara tímaspursmál hvað náttúran heldur þetta lengi út, því hún er dæmd til ósigurs í þessu stríði,“ sagði Jón, svartsýnn á framtíð Atlantshafslaxins.

Nafn bókarinnar vekur skemmtilega athygli. Þetta er nefnilega bók númer tvö sem skrifuð hefur verið um Norðurá. Fyrir nokkrum áratugum skrifaði Björn J. Blöndal bók um ána og skýrði: Norðurá; fegurst áa. Norðurá er sem sagt „enn“ fegurst áa. Hverjum þykir sinn fugl fagur, en ekki verður um það deilt, falleg er Norðurá.

Í upphafi þessa texta var þess getið að útgáfuhóf verði í Veiðiflugum á Langholtsvegi á morgun, fimmtudag. Það hefst klukkan 16 og lýkur klukkan 19. Jón verður á staðnum, kynnir bókina og áritar eftir óskum.