Bjarki Már Jóhannsson, Ytri Rangá, Gunnugilsbreiða
Óhemju fallegt eintak af gömlum þroskuðum sjóbirtingi, 85 cm úr Ytri Rangá, veiddur á Gunnugilsbreiðu. Mynd Bjarki Már Jóhannsson.

Sjóbirtingur er nú tekinn að veiðast í Vestur Skaftafellssýlu og það fyrir nokkru síðan. Nefna má Jónskvísl, Fitjaflóð, Tungulæk og Eldvatn. Sums staðar hefur verið beinlínis líflegt. Nýlega veiddist auk þess gríðarlega fallegur fiskur í Ytri Rangá, 85 cm.

Nokkrar á umræddum slóðum fá göngur fyrr en aðrar og með þeirri undantekningu sem Tungulækur er, þá eru það árnar sem renna beint í sjó en ekki í jökulá. Nefnilega Jónskvíls, Grenlækur og Eldvatn. Fyrstu tíðindin ná aftur í miðjan júlí er hópur Suðurnesjamanna landaði tuttugu fiskum í Fitjaflóði, eða Grenlæk 4, og var helmingurinn nýgengnir birtingar, allt að tíu punda. Keflvíkingar segja einnig frá veiðimanni sem að lenti í því í Jónskvísl undir mánaðamótin, að Fosshylurinn sem hann var að veiða í fylltist af nýgengnum sjóbirtingi. Landaði hann á skömmum tíma átta fiskum og voru þar af fimm nýrenningar, allir um 6 pundin.

Áður hafði Jón Hrafn Karlsson sagt okkur að fiskar hefðu sést og veiðst í Eldvatni og það sama má segja um Tungulæk. Þá birti Bjarki Már Jóhannsson leiðsögumaður við Ytri Rangá mynd á FB síðu sinni af gríðarlega flottum sjóbirtingi sem veiddist í ánni núna í vikubyrjun. 85 sentimetrar og sílspikaður. Allan daginn 14 til 16 punda fiskur.